Enski boltinn

Kórónaveiran ógnar sumarferð Man United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford og félagar í Manchester United vita ekki hvert þeir fara í æfingaferð næsta sumar.
Marcus Rashford og félagar í Manchester United vita ekki hvert þeir fara í æfingaferð næsta sumar. Getty/Simon Stacpoole

Æfingaferð Manchester United í sumar er í uppnámi vegna útbreiðslu Kórónaveirunnar í Kína en United ætlaði að fara í Asíuferð á undirbúningstímabilinu í ár.

Viðræður um æfingaferðina voru komnar af stað en Manchester United hefur nú gert hlé á þeim samkvæmt frétt hjá ESPN. Útbreiðsla Kórónaveirunnar er þar aðalástæðan en yfir þúsund manns hafa látist af hennar völdum í Kína.

Forsvarsmenn heilbrigðismála í Kína hefur gengið illa að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar og allur heimurinn er á varðbergi á meðan Kórónaveiran er á ferðinni.

Manchester United ætlaði sér að koma við í borgunum Peking, Shanghæ og Shenyang en í þeim öllum er félagið að opna skemmtimiðstöðvar sem munu snúast um Manchester United. Allar eiga þær að opna fyrir árslok.



Félagið hafði ekki gengið frá neinu í þessum viðræðum en vitað var af áhuga United á að spila þessa æfingaleiki í Asíu og Indlandi í júlímánuði áður en enska úrvalsdeildin hefst á nýjan leik 8. ágúst.

Manchester United fór til Singapúr og Shanghæ síðasta sumar og fór líka í tveggja leikja ferð til Kína árið 2016.

Manchester United er eins og fleiri stór evrópsk félög að reyna að sækja inn á markaðina í Asíu. Félagið bauð þannig í áhorfendapartý í Shenzhen í janúar þar sem stuðningsmenn United á svæðinu komu saman til að horfa á 4-0 sigur liðsins á Norwich. Partýið var haldið undir merkjum „I Love United“ herferðarinnar eða „Ég elska United“ upp á íslensku.

Manchester United ætlar nú að bíða og sjá til áður ákveðið verður hvert United liðið fer í sumar. United hefur farið til Bandaríkjanna á fjórum af síðustu sex sumrum og það verður líklegri áfangastaður með hverjum degi sem tekst ekki að hemja útbreiðslu Kórónaveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×