Enski boltinn

Fyrsta vetrarfríið búið snemma?

Sindri Sverrisson skrifar
Pep Guardiola og hans menn hafa nóg að gera þegar vetrarfríinu lýkur.
Pep Guardiola og hans menn hafa nóg að gera þegar vetrarfríinu lýkur. vísir/epa

Lið Manchester City og West Ham gætu neyðst til þess að ljúka sínu fyrsta vetrarfríi snemma. Erfitt virðist að finna hentugan dag fyrir liðin til að mætast eftir að leik þeirra var frestað vegna veðurs á sunnudag.

Enska úrvalsdeildin lét undan þrýstingi fyrir þessa leiktíð um að leikmenn fengju að fara í vetrarfrí á miðri leiktíð, líkt og tíðkast í öðrum bestu deildum Evrópu. Leikmenn City og West Ham eru því komnir í frí og ekki stóð til að þeir þyrftu að spila aftur leik fyrr en eftir tvær vikur. Úrvalsdeildin vill reyna eins og hægt er að koma í veg fyrir að frí leikmanna verði stytt en samkvæmt Daily Mirror er líklegast að sú verði raunin, og að leikurinn fari fram miðvikudagskvöldið 19. febrúar.

Manchester City á afar stífa leikjadagskrá fyrir höndum en Englandsmeistararnir eru einnig að spila í enska bikarnum, deildabikarnum og Meistaradeild Evrópu. Áður hefur leikur þeirra við Arsenal sem fram átti að fara 29. febrúar verið færður vegna úrslitaleiks deildabikarsins sömu helgi. Þess vegna virðist næsta vika eini möguleikinn sem í boði er. Félögin vilja hins vegar ekki kalla leikmenn sína of snemma úr fríi og samkvæmt Mirror er enn verið að velta upp fleiri möguleikum, þó að 19. febrúar sé líklegasta niðurstaðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×