Enski boltinn

„Allir hata þig þegar þú ert enskur landsliðsmaður“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pickford hefur verið mistækur í vetur.
Pickford hefur verið mistækur í vetur. vísir/getty

Jordan Pickford, markvörður Everton og enska landsliðsins, segir að gagnrýnin sem hann hefur fengið fyrir frammistöðu sína að undanförnu hafi ekki áhrif á sig. Og hann segir að „allir hati þig“ þegar þú ert enskur landsliðsmaður.

Pickford átti sök á markinu sem Christian Benteke skoraði fyrir Crystal Palace í leiknum gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Það kom þó ekki að sök því Everton vann leikinn, 3-1.

„Einhverra hluta vegna hata þig allir þegar þú spilar fyrir enska landsliðið. Ég held að enska pressan og álitsgjafar, eins og Gary Neville, hafi bara áhuga á að rífa ensku landsliðsmennina niður,“ sagði Pickford. „Þú þarft að lifa með því og læra. Ég veit hvað ég get og hverju ég er góður í.“

Pickford reynir að láta gagnrýnina hafa sem minnst áhrif á sig og einbeitir sér bara að því að standa sig inni á vellinum.

„Þú reynir að leiða þetta hjá þér því sá eini sem getur bætt hlutina ert þú sjálfur, bæði í leikjum og á æfingum. Ég einbeiti mér að því að standa mig með Everton og þá verð ég valinn í landsliðið,“ sagði Pickford.

„Það er fyndið að þú færð svo mikið hrós þegar þú ert með enska landsliðinu en þegar þú spilar með félagsliðinu vilja allir láta þig heyra það. Ég læt þetta ekki hafa áhrif á mig.“

Pickford og félagar í Everton eru komnir upp í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir gott gengi að undanförnu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×