Enski boltinn

Alli biðst afsökunar á að hafa gert grín að Asíubúa og Wuhan-veirunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alli skoraði sjálfsmark með myndbandi sem hann birti á SnapChat um helgina.
Alli skoraði sjálfsmark með myndbandi sem hann birti á SnapChat um helgina. vísir/getty

Dele Alli, leikmaður Tottenham og enska landsliðsins, hefur beðist afsökunar á myndbandi sem hann birti á SnapChat á laugardaginn. Þar gerði hann grín að asískum manni og Wuhan-veirunni.

Í myndbandinu sést Alli með andlitsgrímu á flugvelli. Hann beindi svo myndavélinni á símanum sínum að grunlausum asískum manni sem sat skammt frá honum og loks að flösku með sótthreinsandi efni.

„Þessi vírus verður að vera fljótari en þetta til að ná mér,“ skrifaði Alli.

Myndbandið féll vægast sagt í grýttan jarðveg og Alli var harðlega gagnrýndur fyrir það. Hann sá að sér, eyddi myndbandinu og baðst afsökunar á framferði sínu.

„Ég vil biðjast afsökunar á myndbandi sem ég birti á SnapChat. Það var ekki fyndið. Ég áttaði mig strax á því og tók það út,“ sagði Alli í afsökunarbeiðninni.

„Ég brást sjálfum mér og félaginu. Maður á ekki að grínast með þetta. Hugur minn er hjá öllum í Kína.“

Alli er núna í vetrarfríi ásamt samherjum sínum í Tottenham. Næsti leikur Spurs er gegn Aston Villa á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×