Körfubolti

Njarðvíkingar bæta við sig tveimur Íslandsmeistaraþjálfurum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Friðrik Pétur Ragnarsson og Sverrir Þór Sverrisson eru aftur farnir að þjálfa í Ljónagryjfunni í NJarðvík.
Friðrik Pétur Ragnarsson og Sverrir Þór Sverrisson eru aftur farnir að þjálfa í Ljónagryjfunni í NJarðvík. Mynd/Njarðvík

Njarðvíkingar segja frá því á heimasíðu sinni í dag að elstu yngri flokkar Njarðvíkur hafa fengið öfluga þjálfara fyrir átökin í vetur því þeir Friðrik Pétur Ragnarsson og Sverrir Þór Sverrisson munu stýra elstu yngri flokkum félagsins á komandi tímabili.

Upphaflega stóð til að Friðrik Ingi Rúnarsson, annar tveggja aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla, yrði með elstu yngri flokkana karlamegin en ekki gat orðið að því í vetur og því verður Friðrik Ingi aðeins með meistaraflokkinn í vetur ásamt Einari Árna Jóhannssyni og Halldóri Karlssyni.

Njarðvíkingar leituðu til tveggja reynslumikilla þjálfara sem þekkja það líka að búa til frábær lið í Ljónagryfjunni.

Friðrik Pétur Ragnarsson gerði karlalið Njarðvíkur tvívegis að Íslandsmeisturum, fyrst sem spilandi þjálfari 2011 með Teiti Örlygssyni og svo sem eini aðalþjálfarinn vorið 2002.

Sverrir Þór Sverrisson gerði kvennalið Njarðvíkur að tvöföldum meisturum tímabilið 2011-12 en Sverrir hefur einnig gert kvennalið Keflavíkur og karlalið Grindavíkur að Íslandsmeisturum.

Sverrir Þór mun taka við stúlknaflokki og 10. flokki kvenna og þjálfa þá ásamt Lárusi Inga Magnússyni en Friðrik Pétur mun taka við unglinga- og drengjaflokki.

Lárusi Inga Magnússon mun einnig aðstoða Rúnar Inga Erlingsson sem þjálfar meistaraflokk kvenna hjá Njarðvík á komandi tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×