Innlent

Mælir með að sveitarstjórn veiti framkvæmdaleyfi um Teigsskóg

Kristján Már Unnarsson skrifar
Úr Teigsskógi við Þorskafjörð. Með þeirri veglínu færist Vestfjarðavegur af tveimur hálsum, Hjallahálsi og Ódrjúgshálsi, og liggur í staðinn um láglendi.
Úr Teigsskógi við Þorskafjörð. Með þeirri veglínu færist Vestfjarðavegur af tveimur hálsum, Hjallahálsi og Ódrjúgshálsi, og liggur í staðinn um láglendi. Vísir/Egill Aðalsteinsson.

Skipulags-, húsnæðis- og hafnarnefnd Reykhólahrepps samþykkti á fundi sínum í fyrradag að leggja til við sveitarstjórn að samþykkja umsókn Vegagerðarinnar um leyfi fyrir Vestfjarðavegi samkvæmt leið Þ-H, það er um Teigsskóg. Tveir nefndarmenn af þremur, þau Jóhanna Ösp Einarsdóttir og Eiríkur Kristjánsson, samþykktu að vísa erindinu til afgreiðslu sveitarstjórnar en Ingimar Ingimarsson oddviti sat hjá. 

Í fundargerð kemur fram að umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi, sem dagsett er 16. desember 2019, fylgi hönnunargögn og aðrar upplýsingar í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi.

Teigsskógarleiðin styttir Vestfjarðaveg um 22 kílómetra. Veglínan liggur þvert yfir mynni Gufufjarðar og Djúpafjarðar og yfir Þorskafjörð með þverun á móts við Þórisstaði.Teikning/Vegagerðin.

„Fyrirhuguð framkvæmd felst í byggingu Vestfjarðavegar frá Bjarkalundi að Skálanesi, byggingu nýs Djúpadalsvegar í austanverðum Djúpafirði og endurbyggingu Gufudalsvegar í vestanverðum Gufufirði, ásamt efnistöku fyrir framkvæmdirnar. 

Lagðar eru fram umsagnir Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og umhverfis- og náttúruverndarnefndar Reykhólahrepps um framkvæmdaleyfisumsókn. Brugðist hefur verið við umsögnum með tillögum að frekari skilmálum fyrir framkvæmdum,“ segir í fundargerð nefndarinnar. 

Þar segir ennfremur að framkvæmdir séu í samræmi við Aðalskipulag Reykhólahrepps og gögn uppfylli þær kvaðir sem komi fram í reglugerð um framkvæmdaleyfi. 

Líklegt þykir að sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykki framkvæmdaleyfið á fundi sínum næstkomandi þriðjudag. Sú ákvörðun er kæranleg til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. 

Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri vonaðist til þess í viðtali 22. janúar 2019, þegar Reykhólahreppur samþykkti Teigsskógarleiðina, að framkvæmdir gætu hafist á vormánuðum 2020, eins og heyra má hér í frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×