Erlent

Eiginkona Navalny biðlar til Pútín

Samúel Karl Ólason skrifar
Þýsku læknarnir fyrir utan sjúkrahúsið í Omsk.
Þýsku læknarnir fyrir utan sjúkrahúsið í Omsk. AP/Evgeniy Sofiychuk

Hópur þýskra lækna er nú á sjúkrahúsinu þar sem Alexei Navalny er í dái. Hópurinn ferðaðist til Rússlands með sjúkraflugi til að sækja Navalny og flytja hann til Þýskalands. Fjölskylda stjórnarandstöðuleiðtogans hefur þó ekki fengið að flytja hann.

Yulia Navalnaya, eiginkona Navalny, hefur sent Vladimir Pútín, forseta Rússlands, persónulegt bréf og beðið hann um að heimila flutninginn en aðstandendur Navalny eru sannfærðir um að það sé ríkisstjórn Pútíns sem standi í vegi fyrir flutningunum.

Navalny, sem leitt hefur stjórnarandstöðuna í Rússlandi, missti meðvitund í flugi frá Síberíu til Moskvu í gær og var hann fluttur á sjúkrahús í borginni Omsk eftir neyðarlendingu skömmu eftir flugtak.

Kira Yarmysh, talskona Navalny, var með honum í för og hefur verið á sjúkrahúsinu síðan hann var lagður þar inn. Hún segir að læknar hafi áður verið búnir að heimila flutninginn til Þýskalands en þeir hafi svo skipt um skoðun.

Hún sagði þýsku læknana hafa farið inn í sjúkrahúsið og ekki sé vitað hvar þeir séu. Allir innlendir læknar virðist hafa horfið af sjúkrahúsinu. Fyrr í morgun birti hún svo mynd af þremur jakkafataklæddum mönnum sem voru á skrifstofu yfirlæknis sjúkrahússins og neituðu að segja hverjir þeir væru.

Einn af samstarfsmönnum Navalny sagði lögreglu hafa tilkynnt sér að eitur hafi fundist í blóði hans. Læknar sögðu svo í kjölfarið að ekkert eitur hefði fundist. Aðstandendur Navalny segjast þó hafa fengið mjög misvísandi svör frá læknum sjúkrahússins.

Meðal annars það að blóðsykur hans gæti hafa lækkað hratt um borð í flugvélinni.

Aðstandendur hans brugðust reiðir við því og sögðu það varla tilefni til að meina þeim að flytja hann til Þýskalands.

Forsvarsmenn Evrópusambandsins hafa kallað eftir því að flutningur Navalny verði leyfður og að hin meinta eitrun verði rannsökuð vel og fljótt. Þá eru þýskir embættismenn einnig búnir að vera í samskiptum við embættismenn í Rússlandi vegna málsins.


Tengdar fréttir

Navalní segist þurfa að leggja niður sjóð gegn spillingu

Háar sektir sem dómstólar hafa lagt á er ástæða þess að Alexei Navalní, einn af leiðtogum rússnesku stjórnarandstöðunnar, segist þurfa að leggja niður sjóð gegn spillingu sem hann stýrir. Sjóðurinn hefur sérhæft sig í að birta rannsóknir á spillingu í opinbera geiranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×