Alexander Lúkasjenkó forseti Hvíta-Rússlands segist ætla að loka þeim verksmiðjum þar sem starfsmenn hafa mótmælt niðurstöðum forsetakosninganna sem fóru fram fyrr í þessum mánuði. Forsetinn hefur gert ítrekaðar tilraunir til að kveða niður mótmælaölduna sem hefur riðið yfir landið.
Lúkasjenkó ýjaði einnig að því í dag að þeir verkamenn sem hafa tekið þátt í mótmælunum yrðu reknir.
„Ef verksmiðjan er ekki starfandi skulum við læsa hliðum hennar frá og með mánudegi, bindum enda á þetta,“ hafði rússneska fréttastofan RIA eftir Lúkasjenkó. „Fólk mun róast og við munum ákveða hverjir fá að vinna.“
Tugir þúsunda Hvít-Rússa hafa mótmælt síðastliðnar tvær vikur frá því að niðurstöður forsetakosninga voru birtar. Margir telja að forsetinn hafi beitt kosningasvindli og krefjast mótmælendur þess að nýjar kosningar verði haldnar. Forsetinn hefur alfarið neitað því að kosningasvindli hafi verið beitt.
Fjöldi verkamanna úr ríkisreknum verksmiðjum hafa tekið þátt í mótmælunum undanfarnar vikur.
Aðal andstæðingur Lúkasjenkó, Svetlana Tsikhanovskaya, sagði í samtali við Reuters í dga að hún liti á sig sem táknmynd breytinga. Tsikhanovskaya flúði til Litháen daginn eftir kosningar og heldur þar til ásamt börnum sínum. Lúkasjenkó sagði í dag, án þess að nefna nokkurn á nafn, að skipuleggjendur mótmælanna „héldu til í nágrannalöndunum“ og nytu pólitísks stuðnings leiðtoga þessara landa.
Tveir leiðtogar nýstofnaðs stjórnarandstöðuráðs í Hvíta-Rússlandi voru yfirheyrðir í gær vegna dómsmáls sem hefur verið höfðað vegna þess sem Lúkasjenkó telur vera valdaránstilraun.