Innlent

Styttist í opnun Dýrafjarðarganga

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá lagningu bundins slitlags á nýja veginn milli Dýrafjarðarganga og Dýrafjarðarbrúar fyrr í mánuðinum.
Frá lagningu bundins slitlags á nýja veginn milli Dýrafjarðarganga og Dýrafjarðarbrúar fyrr í mánuðinum. Mynd/Verkeftirlit Dýrafjarðarganga.

Endaspretturinn er hafinn í lokafrágangi Dýrafjarðarganga og standa vonir til að unnt verði að opna jarðgöngin um miðjan október, að sögn Baldvins Jónbjarnarsonar, sem annast verkeftirlit.

„Það væri svo sem hægt að opna á þetta svona. En það er mikil frágangsvinna eftir, veðurfarsháðir þættir eru eftir. Þetta er mikið af smáverkum út um allt,“ sagði Baldvin í samtali við fréttastofu í dag.

Göngin eru nánast tilbúin að innan. Búið er að malbika akbrautina og raflýsing er komin.Mynd/Verkeftirlit Dýrafjarðarganga.

Öll lýsing er komin upp í göngunum og malbikun þeirra lauk í sumar. Á vegina að göngunum er búið að klæða fyrra slitlagið, bæði Arnarfjarðar- og Dýrafjarðarmegin, og stefnt að því að klæða seinna lagið á föstudag.

Þá er byrjað að setja upp vegrið og von á verktaka til að setja upp stjórnbúnað til að fjarstýra ljósum og blásurum. Uppsetningu skilta er ólokið sem og vegmerkingum. Þá er eftir að ganga frá vegfláum og jarðvegi við jarðgangamunna.

Frá lagningu bundins slitlags á nýja veginn í Dýrafirði.Mynd/Verkeftirlit Dýrafjarðarganga.

Framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hófust sumarið 2017 og fyrsta sprenging var þá um haustið. Síðasta haftið í þessum 5,3 kílómetra löngu göngum var svo sprengt í apríl 2019.

Jarðgöngin leysa 552 metra háa Hrafnseyrarheiði af hólmi og stytta vesturleiðina milli Ísafjarðar og Reykjavíkur um 27,4 kílómetra.

Hér má sjá þegar slegið var í gegn í fyrra:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×