Innlent

Meðalaldur smitaðra lægri en áður

Samúel Karl Ólason og Birgir Olgeirsson skrifa
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, embætti landlæknis og Landspítali bjóða til upplýsingafundar fyrir blaðamenn vegna Kórónuveirunnar
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, embætti landlæknis og Landspítali bjóða til upplýsingafundar fyrir blaðamenn vegna Kórónuveirunnar Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, segir stöðuna alvarlega hér á landi. Fjöldi þeirra sem greindust með Covid-19 sé meira en samanlagður fjöldi smitaðra síðustu viku. Hann segir að íhuga þurfi vel til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að sporna gegn þessari útbreiðslu.

Þá sé meðalaldur þeirra sem greindist í gær lægri en hafi verið. Mikið sé um fólk á þrítugsaldri.

Víðir segir einnig að um helmingur þeirra smita sem greindust í gær tengist skemmtistöðum.

„Við erum ekki á góðri leið. Þetta eru tölur sem við höfum ekki séð síðan faraldurinn var í hvað örustum vexti í mars,“ segir Víðir. Hann segir skimun meiri núna en þeir hafi miklar áhyggjur af stöðunni.

75 greindust innanlands og einn á landamærunum.

Víðir segir að í dag sé verið að skoða mögulegar aðgerðir. Sama til hvaða aðgerða verði gripið snúist þetta um samstöðu okkar allra.

„Við erum búin að ganga í gegnum þetta og þekkjum öll hvað þarf að gera. Við þurfum að draga úr samneyti við aðra. Við þurfum að vera í minni hópum og við þurfum að passa okkar eigin sóttvarnir. Þetta er það sem við gerðum svo vel í vor. Við þurfum að gera það núna, hratt og örugglega, og byrja strax.“

Víðir segir að meðal þess sem hafi verið rætt sé að fjölga stöðum þar sem er grímuskylda. Ekki hafi verið rætt um að setja slíka skyldu á á almannafæri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×