Öryggissveitir Alexanders Lúkasjenkó Í Hvíta-Rússlandi handtóku á fjórða hundrað mótmælenda sem komu saman til þess að andæfa óvæntri embættistöku sitjandi forsetans í gær. Breska ríkisstjórnin segist leggja drög að því að leggja refsiaðgerðir á Hvíta-Rússlandi vegna mannréttindabrota þar.
Þúsundir manna mótmæltu á götum höfuðborgarinnar Minsk og í fleiri borgum eftir að Lúkasjenkó lét óvænt halda athöfn þar sem hann sór embættiseið sem forseti í gær. Engin tilkynning var send út um athöfnina en stjórnarandstaðan í landinu og vestræn stjórnvöld telja að stórfelld svik hafi verið framin í forsetakosningunum í síðasta mánuði.
Innanríkisráðuneytið segir að 364 manns hafi verið handteknir og að meirihluti þeirra sé enn í varðhaldi og bíði þess að koma fyrir dómara, að sögn AP-fréttastofunnar.
Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í dag að breska ríkisstjórnin undirbúi nú að beita einstaklinga sem tengjast stjórn Lúkasjenkó refsiaðgerðum vegna mannréttindabrota í landinu. Aðgerðir séu í samvinnu við bandarísk og kanadísk stjórnvöld, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
„Í ljósi svikullar embættistöku Lúkasjenkó hef ég skipað refsiaðgerðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins að undirbúa Magnitskí-refsiaðgerðir gegn þeim sem bera ábyrgð á alvarlegum mannréttindabrotum,“ sagði Raab á þingi.
Magnitskí-refsiaðgerðirnar eru nefndar í höfuðið á Sergei Magnitskí, rússneskum lögmanni, sem lést í fangelsi í Rússlandi eftir að hann lagði fram gögn sem sýndu fram á stórfelld skattsvik háttsettra rússneskra embættismanna árið 2009. Magnitskí lést eftir að hafa verið beittu harðræði í fangelsinu.
Lúkasjenkó hefur barið niður mótmæli gegn sér með offorsi. Lögregla hefur beitt mótmælendur ofbeldi og saksóknarar ákæra leiðtoga þeirra og helstu stjórnarandstæðinga landsins. Ríkissaksóknari landsins hótaði mótmælendum harðari refsingum í dag. Boðaði hann einnig að harðar yrði tekið á foreldrum sem tækju börn sín með á mótmæli.