„Þetta er nú meiri fíflagangurinn. Nú fara allir Mýrdælingar að reyna að fljúga í gegnum gatið og drepa sig allir sem einn,“ sagði Guðjón Þorsteinsson bóndi við Ragnar Axelsson ljósmyndara einn dag í fjörunni við Dyrhólaey. Ástæðan var að RAX hafði fengið leyfi hjá Ragnari til að Arngrímur Jóhannsson og Árni Johnsen fengju að lenda flugvél á túninu hans í ævintýraflugi.
RAX kynntist fyrst Guðjóni og bróður hans Óskari dag einn þegar óveður gekk yfir á Suðurlandi. Rafmagnsstaurar brotnuðu og bræðurnir þurftu að handmjólka í nokkra daga og nota bílljós til þess að sjá hvað þeir væru að gera. RAX og Guðjón áttu strax einstakt vinasamband þrátt fyrir aldursmuninn.

Myndin sem Ragnar tók af Guðjóni í fjörunni við Dyrhólaey með brimsúginn í bakgrunni, er ein af þekktustu myndum ljósmyndarans. En myndin sem um ræðir átti líka eftir að hafa áhrif á Guðjón.
„Þegar þessi mynd kom, þá allt í einu fór heimurinn á hvolf hjá mér,“
segir RAX meðal annars um þessa mynd. Í fimmta þætti af RAX Augnablik segir hann söguna á bak við myndina sem prýðir forsíðu bókarinnar Andlit norðursins, Guðjón við Dyrhólaey. Í þættinum fáum við að kynnast betur gamla manninum sem RAX myndaði við hafið og heyra hvernig samband þeirra var í raun og veru.
Þáttinn má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan. RAX Augnablik eru örþættir og þátturinn Guðjón við Dyrhólaey er tæpar sex mínútur.