Íslenski boltinn

Kristján: Ætlum að vinna rest

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristján Guðmundsson er að klára sitt annað tímabil með Stjörnuna.
Kristján Guðmundsson er að klára sitt annað tímabil með Stjörnuna. vísir/vilhelm

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður með frammistöðu Garðbæinga í fyrri hálfleiknum í sigrinum á KR-ingum, 0-2, á Meistaravöllum í dag.

„Við vorum með stjórn á leiknum í fyrri hálfleik og spiluðum nokkuð vel. Við fundum svæðin sem voru opin og þetta var vel spilaður leikur,“ sagði Kristján við Vísi eftir leik.

Stjörnukonur voru miklu mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu 0-2 að honum loknum.

„Við fundum svæðin í kringum miðjumennina þeirra. KR fer í miðjupressu og skilja pláss eftir fyrir aftan kantmennina sína og okkur tókst að spila í þau svæði í fyrri hálfleik,“ sagði Kristján.

Hann var ekki jafn kátur með spilamennsku Stjörnunnar í seinni hálfleik og þeim fyrri.

„Seinni hálfleikurinn var slakur hjá okkur og sennilega kom værukærð í liðið því við fundum hvað var auðvelt að spila fyrri hálfleikinn. Kannski vorum við ekki nógu vakandi fyrir því í hálfleik að fá á okkur þetta áhlaup frá KR,“ sagði Kristján.

„Okkar spilamennska í seinni hálfleik var ekki góð og kannski er ákveðinn lærdómur í því að vera með 0-2 forystu og ná að stjórna leiknum betur.“

Með sigrinum í dag komst Stjarnan upp í 5. sæti Pepsi Max-deildarinnar.

En hvað ætla Garðbæingar að gera í leikjunum þremur sem þeir eiga eftir?

„Þetta er svo þéttur pakki þarna og það getur svo margt gerst í þessum leikjum. Við ætlum að vinna rest en hvort það tekst verður að koma í ljós,“ svaraði Kristján.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×