Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, lét embættismenn sína skoða möguleikann á því að láta byggja móttökustöð fyrir hælisleitendur og farendur á tveimur eyjum í Suður-Atlantshafi, um fimm þúsund kílómetrum frá Bretlandi.
Financial Times greinir frá þessu og segir að eyjarnar tvær sem skoðaðir hafi verið í þessum tilgangi hafi verið Ascension-eyja og St. Helena. Utanríkisráðuneyti Bretlands tók þátt í að skoða ráðabruggið með því að meta hvort fýsilegt væri að senda hælisleitendur sem vilja koma til Bretlands svo langt í burtu frá eyríkinu.
Heimildarmenn Times segja að Patel hafi hætt við þessar hugmyndir en að hún hafi viljað láta skoða móttökustöð á fjarlægri eyju í ætt við það sem Ástralir gera, en þeir hafa sett upp sérstakar móttökustöðvar á eyjum fjarri Ástralíu.
Um eitt þúsund manns búa á Ascension-eyju sem Bretar notuðu meðal annars sem undirbúningssvæði í Falklandseyjastríðinu á níunda áratug síðustu aldar. Um og yfir 34 þúsund hælisleitendur hafa sótt um hæli í Bretlandi það sem af er þessu ári.