Töluvert hefur rignt á Austfjörðum í nótt og má búast við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám sem eykur hættu á flóðum og skriðuföllum. Gul viðvörun er í gildi fram á kvöld.
Á vef Veðurstofunnar segir að um klukkan sjö hafi tæpir 60 millimetrar mælst í Neskaupstað frá miðnætti. Er spáð allhvassri austlægri átt austantil á landinu og rigningu, en reiknað er með að stytti upp í kvöld.
Vatnavextirnir í ám og lækjum fyrir austan eykur hættuna á flóðum og skriðuföllum, sem geta valdið tjóni og raskað samgöngum. „Einnig er aukið álag á fráveitukerfi. Fólk er hvatt til að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Annars staðar á landinu er gert ráð fyrir suðlægri eða breytilegri átt, skýjað á köflum og stöku skúrum.