Innlent

Mælist til að opið helgihald falli niður í október

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, mælist til þess að opið helgihald falli niður í október.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, mælist til þess að opið helgihald falli niður í október. Vísir/Baldur

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, mælist til þess við presta landsins og aðra sem starfa við kirkjurnar að opið helgihald falli niður í október vegna stöðunnar sem uppi er í samfélaginu vegna kórónuveirufaraldursins. Í staðinn er hvatt til þess að streyma efni til fólks.

Þetta kemur fram í bréfi sem biskup ritaði á mánudag til presta, djákna, organista, formanna sóknarnefnda og útfararstjóra og greint er frá í tilkynningu á vef kirkjunnar í gær.

Í bréfinu mælist biskup til þess að kirkjustarfi verði hagað með tilteknum hætti vegna hertra samkomutakmarkanna en á miðnætti á mánudag tók tuttugu manna samkomubann gildi.

Óskað er eftir því að allar kóræfingar falli niður í október og eru organistar og kórstjórar hvattir til að halda uppi æfingum í gegnum fjarfundabúnað:

„Minnt er á að fimmtíu manna fjöldatakmörkun við útfarir. Þau sem eru með undirliggjandi sjúkdóm vísi frá sér athöfnum.

Tuttugu manna fjöldatakmörkun gildir við kirkjulegar athafnir eins og skírn og hjónavígslur.

Áfram heldur barna- og æskulýðsstarf þeirra sem fædd eru árið 2005 og skal sem áður halda allar sóttvarnareglur sem í gildi eru.

Allt eldri borgarastarf fellur niður í október og eru prestar og djáknar hvattir til að huga að þeim hópi með símtölum og sálgæslu.

Fermingarfræðslu skal haldið áfram, að teknu tilliti til allra sóttvarnareglna sem í gildi eru.

Hvatt er til að áður boðaðir fundir, ráðstefnur og þing, verði haldin rafrænt sé það mögulegt eða frestað sé þess kostur.

Þá er starfsfólk sem veikist hvatt til að halda sig heima og sömuleiðis öll þau sem eru með undirliggjandi sjúkdóma,“ segir í tilkynningu kirkjunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×