Lögreglumaður á Filippseyjum er látinn eftir að hani, sem þjálfaður hafði verið upp til að stunda hanaat, réðst á hann við húsleit lögreglu á ólöglegum hanaatsstað í héraðinu Norður-Samar.
BBC segir frá því að lögreglumaðurinn hafi verið stunginn með stálblaði sem fest er á fót hana sem notaðir eru í hanaati. Var hann stunginn í lærið, hæfði slagæð, sem varð til þess að lögreglumanninum blæddi út.
Lögreglumaðurinn var fluttur á sjúkrahús þar sem hann var úrskurðaður látinn.
Hanaat hefur verið bannað á Filippseyjum eftir að heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á. Undir venjulegum kringumstæðum er hanaat heimilað á ákveðnum tímum en starfsemin er leyfisskyld.
Lögreglustjórinn Arnel Apud segir slysið „óheppilegt“ sem ekki sé hægt að skýra með fullu.
Alls voru þrír handteknir í tengslum við málið, en þriggja manna er enn leitað.
Hanaat er vinsælt á Filippseyjum þar sem margir koma jafnan saman til að veðja á niðurstöðu slagsmála hananna.