Íslenski boltinn

„Upp­lifun okkar var sú að það væri ekki mikil á­kefð í að hjálpa okkur“

Anton Ingi Leifsson skrifar
KR-ingar fagna marki í sumar.
KR-ingar fagna marki í sumar. VÍSIR/BÁRA

Bjarni Guðjónsson, aðstoðarþjálfari KR, segir að KR-ingum hafi ekki fundist öll ákefðin hafi verið sett í að hjálpa þeim eftir Evrópuævintýrið í sumar.

Eins og frægt er orðið missti KR af Evrópusæti eftir að Íslandsmótið var blásið af fyrir helgi. Á kostnað KR fer Stjarnan í Evrópusæti en liðið voru með jöfn mörg stig. Stjarnan þó betri markatölu.

Eitt umtalaðasta atvik sumarsins var þegar KR-liðið þurfti í sóttkví eftir útileik sinn gegn Celtic í forkeppni Meistaradeildarinnar. Þeir lentu tíu mínútum yfir miðnætti er reglurnar tóku gildi og þurftu í fimm daga sóttkví.

Bjarni var til viðtals í útvarpsþættinum Fótbolti.net um helgina og hann var meðal annars spurður um Evrópuleikina, hvernig hafi verið að fara í þá á tímum COVID19.

„Það var í sjálfu sér ekkert stórkostlegt mál. Það var mikil vinna lögð í að við færum eftir tilmælum og öllum lögum og reglum. Við fórum ekki af hótelinu, vorum með sér rútu og meira að segja sér flugvél,“ sagði Bjarni og hélt áfram.

„Við vorum öruggari í þessum ferðum okkar úti í þessum Evrópuleikjum en við vorum hérna heima. Í fyrra skiptið þegar við komum; við lendum tíu mínútur yfir miðnætti og þurfum að fara í sóttkví. Að það hafi ekki verið sýnd einhver smá liðlegheit.“

KR-ingar leigðu m.a. vél til þess að komast beint heim eftir leikinn. Það skilaði þó ekki tilætluðum árangri og segir Bjarni að hann hefði getað hugsað sér meiri hjálp yfirvalda.

„Það kostaði fullt af peningum, allt sem það var lagt í að við myndum sleppa við þessa sóttkví, en svo fengum við ekkert fyrir það. Það var pínu pirrandi. Ég skil alveg fólk sem er að vasast í þessu. Það hefur enginn lent í þessu áður.“

„Upplifunin okkar á milli leikmanna og stjórnarmanna, þeirra sem voru að taka ákvörðun um þetta, var sú að það væri ekkert mikil ákefð í að hjálpa okkur.“

KR

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×