Golf

Tiger með græna jakkann í nítján mánuði og fær enn gæsahúð við að hugsa til sigursins

Sindri Sverrisson skrifar
Tiger Woods hefur titil að verja um helgina.
Tiger Woods hefur titil að verja um helgina. Getty/Jamie Squire

Tiger Woods er búinn að vera með græna sigurjakkann í sinni vörslu í 19 mánuði nú þegar innan við sólarhringur er í að Masters risamótið í golfi hefjist.

Masters fer vanalega fram í apríl og hinn 44 ára gamli Tiger vann eftirminnilegan sigur á mótinu í fyrra. Það var fyrsti sigur hans á risamóti í ellefu ár en jafnframt fimmti sigurinn á Masters og fimmtándi sigurinn á risamóti.

„Ég fæ enn gæsahúð þegar ég hugsa um þetta,“ sagði Tiger við fjölmiðla um sigurinn í fyrra. Fjöldi áhorfenda kyrjaði nafn hans og hann fagnaði sigrinum með börnum sínum sem biðu við átjándu flötina á Augusta-vellinum. Sú verður ekki raunin nú því áhorfendur eru bannaðir vegna kórónuveirufaraldursins.

Tiger byrjar á tíunda teig

„Ég gekk þarna af flötinni, sá [son minn] Charlie með opinn faðminn, og þetta hafði mikla þýðingu fyrir mig og hefur enn. Þetta minnti mig bara svo mikið á mig og pabba minn [Earl árið 1997] og það að fullkomna hringinn svona gefur mér enn þá mikið, og fær mann til að tárast aðeins,“ sagði Tiger.

Tiger hefur leik á morgun kl. 12.55 að íslenskum tíma og er meðal annars í ráshópi með Íranum Shane Lowry, sigurvegara The Open í fyrra. Vegna þess að mótið fer fram á þessum árstíma þarf að keyra það hraðar en ella, og því er ræst út af 1. og 10. teig. Tiger byrjar á 10. teig á morgun.

Tiger segist enn vera að „púsla öllu saman“ en vonast til að það hafi tekist fyrir mótið sem hefst á morgun. Faraldurinn hefur auðvitað haft sín áhrif en Tiger hefur lítið sýnt á þessu ári og aðeins tekið þátt í sex mótum.

Klippa: Tiger Woods á Masters

„Ég hef augljóslega ekki spilað mikið. En þetta hefur snúist um að gíra sig upp fyrir risamótin og reyna að skilja hvað við erum að etja við vegna COVID, og reyna að vera öruggur. Ég var hikandi við að snúa aftur og byrja að spila, og þess vegna beið ég svona lengi og sneri aftur á Memorial. Síðan þá hef ég ekki alveg náð að púsla öllu saman en það gerist vonandi í vikunni,“ sagði Tiger.

Masters mótið er í beinni útsendingu á Stöð 2 Golf frá fimmtudegi til sunnudags. Útsending á morgun hefst kl. 18.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×