Enski boltinn

Sextán ára gutti frá Birmingham velur á milli fjögurra risa

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jude Bellingham í leik með Birmingham fyrr á leiktíðinni en þessi sextán ára piltur er ansi efnilegur.
vísir/getty

Jude Bellingham er ekki nafn sem margir knattspyrnuáhugamenn þekkja en nú eru fjögur af stærstu félögum í heimi að sækjast eftir kröftum hans fyrir næstu leiktíð.

Bellingham er talinn einn efnilegasti leikmaður Englands en hann hefur leikið 32 leiki í ensku B-deildinni á leiktíðinni. Hann er miðjumaður og hefur komið að sjö mörkum; skorað fjögur og lagt upp þrjú.

Nú segja enskir fjölmiðlar að fleiri stórlið hafi bæst í hóp þeirra sem vilja klófesta þennan unga Englending í sumar. Manchester United og Chelsea eru þau tvö lið á Englandi sem vilja Jude en Bayern Munchen og Borussia Dortmund eru einnig talin áhugasöm.

Talið er að öll liðin séu tilbúin að borga 30 milljónir punda fyrir Englendinginn en hann er talinn velja milli þessara stórliða í sumar.

Birmingham er í 16. sæti ensku B-deildarinnar með 47 stig en deildin er sem kunnugt er í hléi vegna kórónuveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×