Fjármálaráðherra segir ekki forgangsmál að fjölga opinberum starfsmönnum heldur að auka fjárfestingar fyrirtækja til að fjölga störfum. Formaður Samfylkingarinnar sagði í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag að kórónuveirufaraldurinn hefði sýnt fram á bráða þörf á fjölgun heilbrigðisstarfsmanna.

Þá þyrfti einnig að fjölga opinberum starfsmönnum á ýmsum öðrum sviðum til að bæta þjónustu við almenning samhliða því að styðja við einkageirann í kreppunni.
„En það er ekki nóg að byggja spítala og hjúkrunarheimili. Það þarf að manna þau. Mönnunarvandinn í íslenska heilbrigðiskerfinu er risavaxin áskorun og kallar á langtíma áætlun um að bæta aðbúnað og kjör heilbrigðisstétta. Við í Samfylkingunni höfum tlað fyrir því að ráðist verði í átak gegn undirmönnun í almannaþjónustu. Til að fjölga störfum í atvinnukreppu, bæta heilbrigðisþjónustu og mikilvæga þjónustu við fólk," sagði Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hugmyndafræði Samfylkingarinnar um að hægt væri að komast út úr kreppunni með fjölgun opinberra starfsmanna ekki taka á rót vandans.
„Rót vandans sem við stöndum frami fyrir núna er hrun í einkageiranum. Það er rót vandans og við verðum að ráðast á þá rót með því að örva, skapa, tryggja að viðspyrna sé til staðar. Auka landsframleiðsluna að nýju. Vegna þess að ef það mistekst höfum við ekki efni á að halda úti þeirri opinberu þjónustu sem við höldum úti í dag. Hvað þá að fara að stækka kökuna," sagði Bjarni.