Enski boltinn

Mjög jákvæðar fréttir fyrir Liverpool því Mo Salah er nú neikvæður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah er markahæsti leikmaður Liverpool á leiktíðinni til þessa.
Mohamed Salah er markahæsti leikmaður Liverpool á leiktíðinni til þessa. EPA-EFE/Peter Powel

Mohamed Salah má byrja að æfa á nýju með Liverpool eftir að hafa mælst neikvæður í nýjasta kórónuveiruprófinu sínu.

Mohamed Salah sýkist af kórónuveirunni í brúðkaupi bróður síns í Egyptalandi en þangað fór hann í landsleikjaglugganum. Brúðkaupið var á undan landsleikjunum en Salah gat ekki spilað með egypska landsliðinu vegna smitsins.

Mohamed Salah missti af leik Liverpool í gær en ætti ekki að missa af fleiri leikjum vegna kórónuveirusmitsins.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði frá því eftir Leicester leikinn í gær að hann reiknaði með því að fá Mohamed Salah á æfingu hjá sér í dag.

„Ég heyrði af því að Salah hafi verið neikvaður. Á morgun (í dag) þá förum við í UEFA próf og hann mun fara í það. Hann getur núna æft með okkur,“ sagði Jürgen Klopp.

„Það eru tvö próf skipulögð á næstu tveimur dögum og hann mun gangast undir þau eins og við allir,“ sagði Klopp.

Liverpool saknaði Mohamed Salah ekki mikið í gærkvöldi þegar liðið vann 3-0 sigur á Leicester City í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar.

Diogo Jota stóð sig mjög vel í framlínunni við hlið þeirra Sadio Mane og Roberto Firmino en allir nema Mane skoruðu.

Mohamed Salah er markahæsti leikmaður Liverpool á leiktíðinni með 10 mörk í 13 leikjum. Diogo Jota er aftur á móti kominn með 8 mörk og hann hefur spilað næstum því 400 mínútum minna en Salah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×