Enski boltinn

Alls sjö leik­menn Man United í drauma­liði Te­vez

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tevez valdi þá Wayne Rooney, Patrice Evra og Cristiano Ronaldo alla í draumalið sitt.
Tevez valdi þá Wayne Rooney, Patrice Evra og Cristiano Ronaldo alla í draumalið sitt. Matthew Peters/Getty Images

Argentíski framherjinn Carlos Tevez var á dögunum beðinn um að búa til draumalið þeirra leikmanna sem hann hefur spilað með á ferlinum. Kom það töluvert á óvart að alls voru sjö leikmenn í liði hans sem hafa leikið með Manchester United.

Carlos Tevez var á sínum tíma mikils metinn af stuðningsfólki Manchester United. Eðlilega þar sem hann var hluti af liði sem vann bæði ensku úrvalsdeildina sem og Meistaradeild Evrópu.

Tevez lenti síðan upp á kant við Sir Alex Ferguson, þáverandi þjálfara félagsins, og gerði svo hið ófyrirgefanlega er hann gekk í raðir Manchester City. Ekki nóg með það heldur þá gagnrýndi hann Sir Alex eftir að hann færði sig um set yfir í bláa hluta Manchester-borgar. 

Tevez fagnar því að verða meistari með City og sendir skýr skilaboð til Sir Alex Ferguson eða Fergie.Daily Mail

Það kom því verulega á óvart þegar hinn 36 ára gamli Tevez – sem spilar nú með Boca Juniors í heimalandi sínu – valdi sex fyrrum samherja sína hjá Manchester United í 11 manna draumalið sitt. Alls hafa svo sjö af 11 leikmönnum liðsins spilað með Man Utd.

Tevez hóf ferilinn hjá Boca Juniors í Argentínu, þaðan fór hann til Corinthians í Brasilíu áður en leiðin lá til West Ham United á Englandi. Eftir að hafa leikið fyrir bæði Manchester-liðin fór framherjinn smávaxni til Ítalíumeistara Juventus áður en hann hélt aftur til Boca þar sem hann er enn þann dag í dag eftir stutt stopp hjá Shanghai Shenhua í Kína árið 2017.

Þá lék Tevez alls 76 leiki í treyju Argentínu frá árunum 2004 til 2015.

Lið Tevez er eftirfarandi: Gianluigi Buffon í markinu. Hugo Ibarra, Rio Ferdnand, Gabriel Heinze og Patrice Evra í vörninni. Paul Scholes, Andrea Pirlo og Paul Pogba eru á miðjunni. Framlínan væri svo Cristiano Ronaldo, Lionel Messi og Wayne Rooney. Tevez sjálfur væri svo á bekknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×