Innlent

Gefa þúsund gjafakort: „Það mun koma sér rosalega vel að geta gefið fjölskyldunum kort fyrir jólin“

Samúel Karl Ólason skrifar
Anna Pétursdóttir, Ásgerður Jóna Flosadóttir og Brynhildur Bolladóttir.
Anna Pétursdóttir, Ásgerður Jóna Flosadóttir og Brynhildur Bolladóttir. Aðsend

Fyrirtækið CCP hefur styrkt Fjölskylduhjálp Íslands, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og Rauða kross Íslands með gjafakortum fyrir fimmtán milljónir króna sem munu koma þúsund einstaklingum og fjölskyldum vel um hátíðirnar.

Þær Anna H. Pétursdóttir frá Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Ásgerður Jóna Flosadóttir frá fjölskylduhjálp Íslands og Brynhildur Bolladóttir frá Rauða kross Íslands veittu styrkjunum móttöku í skrifstofum CCP í Grósku í dag.

Samtökin þrjú munu koma kortunum til þeirra sem á þurfa að halda um allt land. Samtals er um að ræða þúsund gjafakort og er upphæð hvers korts 15 þúsund krónur.

CCP hefur áður styrkt Mæðrastyrksnefnd fyrir jólin en nú hafa forsvarsmenn fyrirtækisins ákveðið að bæta verulega þar í með mun hærri upphæð og þá til fleiri samtaka.

Anna segir í samtali við Vísi styrkurinn, og aðrir sem hafa borist, muni reynast vel um jólin. Það hafi verið ótrúlega mikið að gera hjá Mæðrastyrksnefnd og þau sem taka þátt í hjálparstarfinu séu glöð að geta veitt fólki veglegan styrk fyrir jólin.

„Ég hlakka svo til að gefa fjölskyldunum kort. Það mun koma sér rosalega vel að geta gefið fjölskyldunum kort fyrir jólin,“ segir Anna.

Mæðrastyrksnefnd fékk um 370 gjafakort en Anna segir að ekki verði hægt að gefa öllum. Þau eigi von á að þurfa að aðstoða 1.200 til 1.300 heimili um jólin. Það sé mun meira en í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×