Enski boltinn

Bielsa ekki í neinum felu­leik: Gaf upp byrjunar­liðið á blaða­manna­fundi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Marcelo Bielsa heldur áfram að koma á óvart.
Marcelo Bielsa heldur áfram að koma á óvart. EPA-EFE/Molly Darlington

Marcelo Bielsa er ekki alveg eins og hinn hefðbundni knattspyrnuþjálfari. Hann kom enn og aftur á óvart á blaðamannafundi í dag er hann gaf upp byrjunarlið Leeds United fyrir leik liðsins gegn West Ham United á föstudaginn.

Bielsa var spurður ú tí meiðsli leikmanna sinna en miðvörðurinn Robin Koch verður frá í þrjá mánuði vegna meiðsla á hné. Aðspurður hvort hann ætlaði að halda West Ham á tánum og láta þá giska á hvernig hann myndi bregðast við meiðslum Koch þá sagði Bielsa svo ekki vera.

Hann þuldi síðan upp þá leikmenn sem munu byrja leikinn gegn West Ham á föstudag. Bielsa hefur ekki alveg náð tökum á enskunni og notast við túlk á blaðamannafundum sínum. Svo virtist sem túlkurinn tryði einfaldlega ekki eigin eyrum og endursagði svo byrjunarlið Leeds fyrir leikinn títtnefnda.

Myndband af þessu kostulega atviki má sjá hér að neðan.

Leeds mætir West Ham á heimavelli sínum, Elland Road, á föstudag. Leeds er í 14. sæti með fjórtán stig að loknum ellefu umferðum á meðan West Ham er í 8. sæti með sautján stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×