Erlent

Réttarhöldin í Namibíu hefjast í apríl

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu og James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor.
Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu og James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor.

Rannsókn yfirvalda í Namibíu á Fishcor-málinu svokallaða er lokið að því er fram kemur í þarlendum fjölmiðlum. Réttarhöld yfir sjömenningunum sem hafa verið í haldi vegna málsins fara fram 22. apríl.

Namibískar fjölmiðlar hafa fjallað um málið í dag eftir að mál sjömenninganna var tekið fyrir í dómsal í höfuðborg Namibíu í morgun.

Þeim Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, Bernhardt Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformanni Fishcor, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasyni Esau og frænda áðurnefnds James, og Ricardo Gustavo, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins Namgomar, er gefið að sök að hafa þegið mútur frá félögum tengdum Samherja, í skiptum fyrir aðgang að gjöfulum fiskimiðum Namibíu.

 Auk þeirra sitja Pius Mwatelulo og Mike Nghipunya einnig á sakamannabekk.

Í frétt Informante segir að sjömenningarnir hafi búist við því að málið gegn þeim yrði dregið til baka sökum þess hversu lengi það hafi verið til rannsóknar hjá yfirvöldum. Niðurstaðan var hins vegar sú að réttarhöld yfir mönnunum hefjast 22. apríl næstkomandi, í yfirrétti Namibíu.

Þá greinir NBC í Namibíu frá því að ákveðið hafi verið að ákæra lögfræðinginn Maren de Klerk í tengslum við málið, auk tveggja annarra.


Tengdar fréttir

Meintur ólöglegur ágóði Samherja sagður 4,7 milljarðar

Meintur ólöglegur ágóði sem Samherji fékk af milliríkjasamningi namibískra og angólskra yfirvalda er metinn á um 4,7 milljarða íslenskra króna. Ríkisútvarpið greinir frá og hefur upp úr beiðni sem namibískur saksóknari hefur lagt fram fyrir dómstól í Namibíu.

Þeir handteknu í Samherjamálinu töpuðu fyrir dómi

Sexmenningarnir sem eru grunaðir um spillingu í tengslum við mál Samherja í Namibíu kröfðust þess að handtökur þeirra yrðu felldar úr gildi. Dómari vísaði kröfum þeirra frá dómi.

Sexmenningarnir í gæsluvarðhaldi til 20. febrúar

Namibísku sexmenningarnir sem grunaðir eru um spillingu, fjársvik og mútuþægni í tengslum við Samherjamálið féllu frá kröfum sínum um að vera látnir laus gegn tryggingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×