Golf

Hoppaði upp um átta sæti á loka­deginum og tók gullið á fyrsta Opna banda­ríska sem hún tók þátt í

Anton Ingi Leifsson skrifar
A Lim Kim gat fagnað í kvöld en hún er að byrja sinn atvinnuferil í golfi frábærlega.
A Lim Kim gat fagnað í kvöld en hún er að byrja sinn atvinnuferil í golfi frábærlega. Jamie Squire/Getty Images

A-Lim Kim er ekki þekktasta nafnið í golfheiminum en hún gerði sér lítið fyrir og vann síðasta risamótið í kvennaflokki, Opna bandaríska, í fyrsta skipti sem hún tekur þátt á mótinu.

A-Lim Kim er í 94. sæti heimslistans og það leit ekki út fyrir að hún væri að fara ná í gullið á mótinu í dag. Lokahringnum í gær var frestað vegna veðurs og því kláraðist mótið í dag.

Fyrir lokahringinn var A-Lim Kim fimm höggum á eftir Hinako Shibuno sem var í efsta sætinu en magnaður lokahringur gerði það að verkum að A-Lim Kim kom, sá og sigraði.

Hún hoppaði upp um níu sæti á lokahringnum og spilaði samtals á fjórum höggum undir pari. Hún fékk meðal annars þrjá fugla á þremur síðustu holunum sem tryggði henni titilinn.

Þetta er einungis hennar þriðji sigur á atvinnumannaferlinum en þetta var í fyrsta sinn sem hún tekur þátt á opna bandaríska.

Ko Jin-young, sem er í efsta sæti heimslistans, endaði í öðru sætinu ásamt Amy Olson en þær voru höggi á eftir A-Lim Kim. Shibuno endaði í fjórða sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×