Skoðun

Hvernig eru jól á spítala?

Hópur sjúkrahúspresta og djákna skrifar

Við sem sinnum sálgæslu, sjúkrahúsprestar- og djákni á Landspítala, fáum iðulega þær spurningar í tengslum við jól og aðventu hvort hægt sé að halda jól á spítala og hvernig slík jól séu. Eins deilir fólk vangaveltum sínum um það hvort jólin geti yfirhöfuð komið til þeirra sem dvelja á sjúkrahúsi um hátíðina.

Í daglegu starfi okkar og þjónustu á Landspítala sinnum við sálgæslu sem felur m.a. í sér samfylgd við sjúklinga og fjölskyldur á erfiðum stundum í lífi þess. Samfylgdin byggir á nærveru sem einkennist af virðingu, trúnaði og umhyggju fyrir hverri manneskju og aðstæðum hennar. Sálgæslan hefur margs konar birtingarform en mætir einstaklingnum þar sem hann er, í erfiðum tilfinningum, óvissu og merkingarleit. Lífsskoðanir þeirra sem þiggja þjónustu sálgæslunnar eru margbreytilegar og er því andlegur, tilvistarlegur og/eða trúarlegur stuðningur veittur á forsendum þeirra. Samtöl fara fram þar sem rætt er við sjúkling og/eða fjölskyldu hans um lengri eða skemmri tíma. Í þeim samtölum er einnig setið í þögninni og um leið fá djúpar og sárar tilfinningar ákveðinn farveg.

Þau eru mörg sem þiggja þennan stuðning þar sem oft er knýjandi þörf fyrir að sinna andlega þættinum þegar veikindi og áföll hafa komið inn í lífið. Tilvistarlegu vangavelturnar verða ágengar og vanmáttur í erfiðum aðstæðum gerir vart við sig þar sem fólk getur upplifað algjört hjálparleysi, kvíða og sorg. Þegar hér er komið nýtist fagþekking sjúkrahúspresta- og djákna, guðfræðin og menntun á sviði áfalla- og sorgarvinnu, handleiðslufræða og fjölskyldumeðferðar.

Á aðventu og jólum er jafnvel meira kallað eftir þjónustu sálgæslunnar en á öðrum tímum ársins. Ástæða þess er án efa sú að aðdragandi jólahátíðarinnar og jólin sjálf snerta við ákveðnum streng í hjörtum fólks. Það fer í huganum til baka til fyrri jóla og deilir minningum sínum sem geta verið góðar og innihaldsríkar en einnig erfiðar og sársaukafullar. Í flestum tilfellum er þó áhersla lögð á að jólin eru tími þar sem tengsl og samskipti eru ræktuð við þau sem standa fólki næst svo sem fjölskyldu, vini og vinkonur. Að dvelja um jól á spítala reynir mikið á. Hvernig er hægt að halda jól þegar óvissa er um sjúkdómsgang og jafnvel andlát yfirvofandi? Við þeirri spurningu er ekkert einhlítt svar. Aftur á móti höfum við margoft verið vitni að því hvernig jólin og það sem þau standa fyrir, ljósið, friðurinn og samkenndin koma til fólks við sjúkra- og dánarbeð ekki bara á jólum heldur á öllum tímum ársins. Þegar jólin eru síðan hringd inn á aðfangadagskvöld þá koma jólin einnig á spítalann þrátt fyrir erfiðar aðstæður og allt verður heilagt.

Um þessar mundir verða jólin hjá okkur öllum með öðru sniði en áður. En þetta sammannlega sem við tengjum við jólin hefur ekki breyst. Við getum sýnt og meðtekið vináttu, umhyggju, ljósið sem skín í myrkrinu og innri frið. Þrátt fyrir krefjandi aðstæður þá koma jólin. Guð gefi þér og þínum gleðileg og huggunarrík jól og blessunarríkt komandi ár.

Höfundar eru Díana Ósk Óskarsdóttir, Eysteinn Orri Gunnarsson, Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir, Gunnar Rúnar Matthíasson, Ingólfur Hartvigsson, Rósa Kristjánsdóttir, Sveinbjörg Katrín Pálsdóttir og Vigfús Bjarni Albertsson.




Skoðun

Sjá meira


×