Greint var fyrst frá þessu atviki á vef 200 mílna á mbl.is.
Skipið var á veiðum á kolmunnamiðum suður af Færeyjum í lok nóvember. Hámeri kom upp með trollinu og virtist fiskurinn dauður. Skipverjinn ætlaði að koma honum fyrir borð en þá beit hámerin hann í vinstri höndina. Blæddi mikið úr skipverjanum og sködduðust vöðvar. Hann var fluttur á sjúkrahús í Þórshöfn í Færeyjum þar sem gert var að sárum skipverjans.
Sigurður VE er í eigu Ísfélagsins í Vestmannaeyjum en Stefán Friðriksson framkvæmdastjóri segir skipverjann ekki hafa verið í hættu á að missa handlegg eða putta, þó þetta hafi sannarlega litið illa út. Hann segir útgerðina hafa fengið þær fréttir að skipverjinn muni ná sér að fullu, en hann er þó enn óvinnufær.
Stefán segir þetta þó óalgengt.
„Hákarlategundir á þessu slóðum sækja ekki í fólk, og í þessu tilviki er einfaldlega verið að ýta fisknum frá borði og þá er glefsað í skipverjann,“ segir Stefán. Hámerin sleppti fljótlega takinu á skipverjanum.
Stefán segir margt gerast til sjós og sjómenn þurfi að hafa varann á þegar verið er að gera að afla.
Steinbítur og hlýri geti til að mynda bitið sig fasta þó það sé búið að slægja þá. „Menn þurfa að passa sig á svoleiðis kvikindum.“
Hámeri er oftast um 2 – 3 metrar á lengd og finnst bæði í vestan- og austanverðu N-Atlantshafinu.