Gylfi Þór skaut E­ver­ton upp í annað sæti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gylfi Þór tryggði Everton sigur í kvöld.
Gylfi Þór tryggði Everton sigur í kvöld. Alex Pantling/Getty Images

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði eina mark Everton í 1-0 sigri á Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í kvöld er liðin mættust á Brammall Lane í Sheffield. Sigurinn lyftir Everton upp í annað sæti deildarinnar.

Gylfi Þór hóf leikinn á miðju Everton en Íslendingurinn hefur verið frábær í undanförnum leikjum er Everton hefur fundið taktinn á nýjan leik. Leikur kvöldsins var ekki mikið fyrir augað en Sheffield United situr sem fastast á botni ensku úrvalsdeildarinnar og leggja því mikið upp úr stífum varnarleik þessa dagana.

Staðan í hálfleik var markalaus og raunar var hún þannig allt fram á 80. mínútu leiksins. Þá fékk Gylfi Þór sendingu frá Abdoulaye Doucoure hægra megin í vítateig Sheffield United. Íslenski landsliðsmaðurinn lagði boltann fyrir sig og sendi hann þéttingsfast í vinstra markhornið.

Reyndist það eina mark leiksins og Everton fór með 1-0 sigur af hólmi, þeirra þriðji sigur í röð. Sigurinn lyftir Everton upp í 2. sætið ensku úrvalsdeildarinnar þegar liðið hefur leikið 15 leiki. Á sama tíma situr Sheffield sem fastast á botni deildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira