Í viðvörun Vegagerðarinnar sem gefin var út í kvöld segir að umtalsverðar slitlagsskemmdir séu á Bíldudalsvegi, á Mikladal og í Tálknafirði. Skemmdirnar séu mestar á Mikladal á um fjögurra til fimm kílómetra kafla og eru vegfarendur beðnir um að aka varlega þar sem aðstæður gætu verið varasamar.

Í ályktun bæjarráðs Vesturbyggðar segir að vegkaflarnir um Mikladal og Tálknafjörð sem og um Barðaströnd séu illa farnir og slitlag á stórum köflum horfið. Aðeins sé tímaspursmál hvenær alvarlegt slys verði á þessum vegum.
Uppbygging laxeldis á stöðum eins og Bíldudal hefur leitt til stóraukinnar umferðar flutningabíla en ljósmyndir sýna slitlagið illa farið. Flutningafyrirtækið Akstur og köfun rekur tólf trukka á þessari leið, sem mest sinna flutningum með ferskan lax.

„Ég held bara að þetta lið fyrir sunnan ætti að fara að vakna yfir því hvað er að gerast hérna,“ segir Gísli Ásgeirsson, eigandi og framkvæmdastjóri Aksturs og köfunar, í viðtali í fréttum Stöðvar 2.
„Á næsta ári til dæmis þurfum við að koma 25 þúsund tonnum héðan í burtu. Og eins og tíðin er núna - það eru umhleypingarnar – það er það versta sem við eigum við. Frostið er það besta.“
Á verkstæði fyrirtækisins sýnir hann okkur flutningabíl sem valt á Hjallahálsi í síðasta mánuði þegar vegkantur lét undan þunganum.
„Hann er einn af þremur sem er búinn að fara.“

Gísli fagnar samt þeim vegarbótum sem hafnar eru í Gufudalssveit.
„Gufudalssveitin verður eitt drullusvað næstu þrjú árin meðan þeir eru að vinna í þessu. Og hún er orðin eitt drullusvað. Það er bara þannig meðan Vegagerðin er að byggja vegi upp úr mold. Þá er bara eitt drullusvað.“
Milli Patreksfjarðar, Tálknafjarðar og Bíldudals vill hann jarðgöng.

„Það verður náttúrlega að byrja að bora hérna í gegn,“ segir Gísli og bendir á brattann á Hálfdáni og Mikladal.
„Og þú tekur ekkert tilhlaup í neina brekku. Það er allsstaðar vinkilbeygja við allar brekkur.
Og þetta er vandamálið. Þú ert á fulllestuðum trukk þarna – þú nærð engri ferð. Þeir eiga náttúrlega að bora í gegnum þetta,“ segir trukkastjórinn.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: