Enski boltinn

Enginn gefið fleiri heppnaðar sendingar á tíma­bilinu en Hender­son í gær

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Henderson losar boltann gegn WBA í gær. Alls átti hann 141 heppnaða sendingu í leiknum.
Henderson losar boltann gegn WBA í gær. Alls átti hann 141 heppnaða sendingu í leiknum. EPA-EFE/Nick Potts

Þó Englandsmeistarar Liverpool hafi aðeins náð 1-1 jafntefli gegn nýliðum West Bromwich Albion á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í gær þá voru yfirburðir heimamanna töluverðir framan af leik.

Liverpool tók á móti lærisveinum Sam Allardyce á Anfield í gær. Englandsmeistararnir byrjuðu leikinn af gríðarlegum krafti og voru komnir 1-0 yfir eftir aðeins tólf mínútur þökk sé marki Sadio Mané eftir sendingu Joël Matip. Þrátt fyrir gríðarlega yfirburði þá var Liverpool aðeins einu marki yfir í hálfleik og gestirnir komu töluvert beittari út í síðari hálfleikinn.

Eftir vel útfærða hornspyrnu jafnaði varnarmaðurinn Semi Ajayi metin þegar lítið var eftir af leiknum og lokatölur á Anfield því 1-1 en þetta var fjórða heimsókn Sam Allardyce í röð á Anfield án taps.

Yfirburðir Liverpool sjást best á tölfræði liðsins í leiknum en alls átti liðið 17 tilraunir að marki gegn fimm hjá gestunum. Það sem meira er þá áttu heimamenn alls 816 sendingar í leiknum gegn aðeins 233 hjá West Bromwich.

Enginn leikmaður átti fleiri sendingar en Jordan Henderson, fyrirliði Englandsmeistaranna, í leiknum. Raunar er það svo að enginn leikmaður í ensku úrvalsdeildinni hefur átt fleiri sendingar í einum og sama leiknum á tímabilinu en Henderson í gær. Hann gaf 141 heppnaða sendingu í leiknum. Aðeins 92 færri en allt WBA liðið til samans.

Eins og áður sagði þá kom það ekki að sök í gær og WBA náði í mikilvægt stig í botnbaráttunni. Eitthvað sem Stóri Sam er orðinn vanur að gera á Anfield.


Tengdar fréttir

Stóra Sam gengið frá­bær­lega gegn Klopp á Anfi­eld

Lærisveinar Sam Allardyce í West Bromwich Albion gerðu 1-1 jafntefli við Englandsmeistara Liverpool er liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í gær. Ætti það ekki að koma á óvart enda lið Allardyce ekki tapað í þremur heimsóknum á Anfield þar á undan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×