Enski boltinn

Wed­nes­day lætur Pulis fara eftir að­eins tíu leiki

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pulis entist aðeins tíu leiki á hliðarlínunni hjá Wednesday.
Pulis entist aðeins tíu leiki á hliðarlínunni hjá Wednesday. Jon Hobley/Getty Images

Í gærkvöld tilkynnti enska B-deildarliðið Sheffield Wednesday að það hefði látið Tony Pulis fara eftir aðeins 45 daga í starfi. Alls stýrði hann liðinu í tíu leikjum.

Wednesday byrjaði tímabilið ágætlega með Garry Monk sem þjálfara en liðið var þegar komið í holu þar sem það byrjaði tímabilið með tólf stig í mínus vegna brota á regluverki enska knattspyrnusambandsins. Sú refsing var á endanum minnkuð niður í sex stig.

Þann 9. nóvember var Monk rekinn eftir slakan árangur og Tony Pulis ráðinn fjórum dögum síðar. Hinn 62 ára gamli Walesverji er þekktur fyrir stífan varnarleik og er talinn sérstaklega góður í að bjarga liðum sem virðast dæmd til að falla.

Hann virðist þó ekki hafa náð til leikmanna Wednesday en eftir einn sigur í tíu leikjum var hann látinn taka poka sinn í gærkvöld. Fjórir leikir töpuðust, fimm enduðu með jafntefli og einn vannst af þeim tíu leikjum sem Pulis stýrði liðinu.

Samkvæmt miðlinum Teamtalk eru þeir Danny Cowley, Eddie Howe, Ryan Lowe og Slaven Bilic nefndir til sögunnar sem arftaki Pulis.

Wednesday situr sem stendur í 23. sæti ensku B-deildarinnar með 13 stig, þremur stigum frá öruggu sæti.


Championship-deildin er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. EFL Championship er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×