Enski boltinn

Ca­vani fær þriggja leikja bann og sekt upp á rúm­lega 17 milljónir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cavani mun missa af næstu þremur leikjum Manchester United.
Cavani mun missa af næstu þremur leikjum Manchester United. EPA-EFE/Martin Rickett

Edinson Cavani, framherji Manchester United, hefur verið dæmdur í þriggja leikja bann fyrir færslu á Instagram-síðu sinni er hann svaraði nánum vini sínum á samfélagsmiðlinum. Fær hann þriggja leikja bann og háa sekt í kjölfarið.

Færsla Cavani kom eftir ótrúlegan sigur Man United gegn Southampton á útivelli þann 29. nóvember. Í leiknum kom Cavani inn af varamannabekknum í hálfleik og skoraði tvívegis, þar á meðal sigurmark í uppbótartíma.

Cavani endurpóstaði færslu frá nánum vini sínum með orði sem hefur verið túlkað sem kynþáttaníð en úrúgvæski framherjinn þvertekur fyrir það. Cavani eyddi á endanum færslunni eftir að hafa fengið ábendingar um að þetta gæti verið túlkað sem kynþáttaníð.

Nú hefur enska knattspyrnusambandið dæmt framherjann öfluga í þriggja leikja bann og sektað hann um 100 þúsund pund eða tæplega 17 og hálfa milljón íslenskra króna. Mun Cavani missa af leikjum United gegn Aston Villa, Manchester City og Watford.

Cavani hefur beðist innilega afsökunar á skilaboðunum fyrst þau gátu mögulega verið túlkuð sem kynþáttaníð. Það var aldrei hugmynd hans. Er það ástæðan fyrir því að Cavani mun ekki mótmæla banninu né sektinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×