Körfubolti

Formaður KKÍ: „Langerfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hannes S. Jónsson segir að það hafi verið erfið ákvörðun að hætta keppni á Íslandsmótinu í körfubolta.
Hannes S. Jónsson segir að það hafi verið erfið ákvörðun að hætta keppni á Íslandsmótinu í körfubolta. vísir/bára

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, segir að sú ákvörðun að blása Íslandsmótið í körfubolta tímabilið 2019-20 af sé sú erfiðasta sem hann hefur tekið í sinni formannstíð.

Stjórn KKÍ sendi í dag frá sér tilkynningu þess efnis að keppni á tímabilinu 2019-20 væri lokið og engir Íslandsmeistarar yrðu krýndir. Hannes ræddi þessa ákvörðun í Sportinu í dag.

„Því miður höfum við oft þurft að taka erfiðar ákvarðanir og það er hluti af því að stýra eins stóru sambandi og KKÍ. En þetta er klárlega langerfiðasta ákvörðun sem ég hef þurft að taka,“ sagði Hannes.

„Við erum með svo mikið af fólki, vinum okkar og félögum, hringinn í kringum landið. Strax eftir fundinn í dag tók ég erfiðustu símtölin. Ég byrjaði að hringja í formenn þeirra félaga sem vonuðust kannski eftir því að fara upp um deild eða sleppa við fall. Mér fannst mikilvægt að þeir heyrðu þetta beint frá mér en ekki lesa um þetta í tölvupósti. Fundurinn í dag var erfiður og símtölin líka.“

Henry Birgir Gunnarsson spurði Hannes hvort það hafi legið eitthvað á að taka þessa ákvörðun.

„Fyrst er þessi fjöldi erlendra leikmanna. Er ekki ósanngjarnt að spila ef þeir koma ekki aftur? Núna þurfa allir sem koma til Íslands að fara í tveggja vikna sóttkví. Hvað varir þetta lengi? Það getur enginn sagt það,“ sagði Hannes.

„Við tókum ákvörðun um að slaufa þessu því við sjáum ekki inn í endann. Að taka þessa ákvörðun eftir fjórar vikur væri hugsanlega alltof seint,“ bætti formaðurinn við.

Klippa: Sportið í dag: Erfitt að hætta keppni á Íslandsmótinu

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×