Erlent

„Púðurtunnan“ Afríka ætti að „búa sig undir það versta“

Samúel Karl Ólason skrifar
Maður sótthreinsar rútu í Kenía.
Maður sótthreinsar rútu í Kenía. Vísir/AP

Yfirvöld Afríkuríkja ættu að búa sig undir það versta. Þó faraldur nýju kórónuveirunnar sé til tölulega nýbúinn að ná til heimsálfunnar er smitum farið að fjölga hratt og sérfræðingar segja að Afríka sé í slæmri stöðu þegar kemur að því að takast á við afleiðingar faraldursins og það eigi jafnvel við ríkustu þjóðirnar þar.

„Ég held að Afríka ætti að vakna. Heimsálfan mín þarf að vakna,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreysus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, á blaðamannafundi í gær. Hann er frá Eþíópíu og sagði að Afríka ætti að búa sig undir það versta.

Í dag var búið er að staðfesta 633 Covid-19, sjúkdómsins sem nýja kórónuveiran veldur, í Afríku og ná þau til 33 ríkja. Minnst sautján hafa dáið og á undanförnum sólarhring tilkynntu Gambía, Máritanía og Sambía um fyrstu tilfellin.

Sérfræðingar óttast að fátækt fólk í Afríku geti ekki tekið sér frí frá vinnu vegna smits og þar að auki er nokkuð um fátækrahverfi þar sem fólk býr mjög þétt og getur ekki farið í sóttkví heima hjá sér. AP fréttaveitan segir ástandið hvað verst í Suður-Afríku. Þar tvöfölduðust staðfest tilfelli á tveimur dögum en þau eru 116.

Blaðamaður BBC heimsótti eitt fátækrahverfi í Jóhannesarborg og ræddi við heimamenn. Þau voru flest þeirrar skoðunar að þau hefðu nánast engar leiðir til að verjast veirunni, ef hún bærist þangað.

Bara það að þvo sér um hendurnar reynist mörgum erfitt sem hafa ekki aðgang að vatni og sápu.

Fangelsisrefsing fyrir að dreifa ósannindum

Sérfræðingar sem BBC ræddi við líkja Afríku við púðurtunnu og segja gífurlega mikilvægt að sporna gegn dreifingu veirunnar þar. Yfirvöld Suður-Afríku virðast þó hafa lært af útbreiðslu veirunnar í Asíu og í Evrópu og hefur þeim verið hrósað fyrir viðbrögð gegn dreifingu hennar.

Samkomubann hefur verið sett á, skólum hefur verið lokað og dregið hefur verið úr aðgengi erlendra aðila að landinu. Þá hafa lög verið sett sem segja til um að þeir sem dreifa ósannindum um faraldurinn og veiruna geta verið fangelsaðir í allt að hálft ár.

Yfirvöld víða í Afríku hafa gripið til sambærilegra aðgerða, jafnvel þó að ekki sé búið að staðfesta tilfelli þar, eins og í Úganda.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×