Allir skiptinemar á vegum AFS þurfa að snúa heim samkvæmt tilskipun frá alþjóðasamtökunum.
Enn eru tuttugu íslenskir nemar erlendis en unnið er að því að koma þeim heim að sögn framkvæmdastjóra samatakanna hér á landi. Tveir erlendir skiptinemar hér eru í sóttkví.
Síðasta laugardagskvöld sendu Alþjóðasamtök AFS út tilkynningu um að allir skiptinemar á vegum samtakanna yrði kallaðir heim vegna kórónuveirufaraldurisns.
Samtökin hér á landi fóru þegar í að finna leiðir fyrir íslenska skiptinema að komast heim og var áhersla í fyrstu lögð á að koma krökkum frá Evrópu heim. Nú eru 50 af 70 komnir heim.
„Svo erum við að vinna í Suður- og Mið-Ameríku og Bandaríkjunum,“ segir Sólveig Ása Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri AFS.
Nemar frá Ítalíu komust heim á sunnudag og fóru beint í sóttkví. Lönd hafa lokað landamærum, flugfélög lagt niður ferðir og segir Sólveig að þetta sé stundum nokkuð flókið.
„Og ef að það er ekki öruggt að fljúga eða hreinlega ekki hægt, þá bíða nemar þar og það eru allir rólegir svo sem ef það kemur upp,“ segir Sólveig.
Hún segir að krakkarnir séu missáttir við að klára ekki skiptinámið en sýni þessu skilning.
„Líðan er auðvitað allavegana. Við erum að vinna með ungu fólki sem er að ganga í gegnum alþjóðlega menntun núna og við erum svolítið að kippa þeim út úr þessu frábæra prógrammi sem við erum að bjóða upp á. Þannig að þetta er áfall fyrir marga,“ segir Sólveig.
Hér á landi hafa nokkrir erlendir skiptinemar þegar komist heim en unnið er í að koma restinni til síns heimalands. Tveir eru í sóttkví og komast ekki alveg strax frá Íslandi.