Viðskipti innlent

Ekki úti­lokað að inn­fluttar vörur hækki í verði

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hvetur fólk til að kaupa innlenda framleiðslu en ekki er útilokað að erlend aðföng hækki í verði á næstu misserum.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hvetur fólk til að kaupa innlenda framleiðslu en ekki er útilokað að erlend aðföng hækki í verði á næstu misserum. Stöð 2

Ekki er útilokað að innfluttar vörur kunni að hækka í verði að sögn fjármálaráðherra í ljósi þess að blikur eru á lofti í efnahagsmálum og flugsamgöngur í lamasessi. Því sé tilvalið að styðja við íslenska framleiðslu að hans mati.

„Varðandi áhrif á vöruverð þá er ekki gott að segja nákvæmlega hvernig það þróast. Það er einhver hætta á að aðkeypt aðföng geti hækkað í verði en eigum við þá ekki líka að láta það verða okkur að áminningu um það að stundum er gott að vera sjálfum sér nógur og við erum með mikla innlenda framleiðslu sem við getum þá á sama tíma treyst á,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra í Víglínunni í dag.

Utanríkisráðherra hvatti í gær þá Íslendinga sem enn væru staddir í öðrum löndum og hygðust koma aftur heim að snúa aftur til landsins hið snarasta. Ekki sé útilokað að allt millilandaflug verði lagt niður um mánaðarmótin. Nær öllu millilandaflugi á Keflavíkurflugvelli var aflýst í dag. Samkvæmt áætlun var von á 44 flugvélum en aðeins tíu þeirra flugu samkvæmt áætlun.

„Mér finnst sjálfsagt að styðja við þá sem eru hér heimafyrir að framleiða íslenskar afurðir. Það finnst mér að menn eigi að gera og við ætlum í þessum aðgerðum okkar þá erum við meðal annars að stefna að sérstöku átaki til þess að hvetja fólk til þess að ferðast innanlands. Við verðum að standa saman í þessari stöðu,“ sagði Bjarni.


Tengdar fréttir

Segja margt gott í aðgerðunum en vilja jafnvel ganga lengra

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar fengu kynningu á efnahagsaðgerðunum ríkisstjórnarinnar vegna faralds kórónuveiru í gær. Þeir segja margt gott þar að finna en kalla eftir auknu samráði á næstu stigum, nánari skýringum og meiri áherslu á þá sem standa höllum fæti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×