Hilmar Snær Örvarsson lætur ekkert stoppa sig. Átta ára gamall varð að taka af honum annan fótinn vegna beinkrabbameins. Hann lét það ekki stöðva sig og hefur náð frábærum árangri í alpagreinum skíðaíþrótta og í golfi.
Íþróttamenn leita allra leiða til að æfa og halda sér í formi. Hilmar Snær Örvarsson er þar engin undantekning. Hilmar stundar nám í læknislegri verkfræði við Háskóla Íslands og varð fyrsti Íslendingurinn til að sigra í Evrópumótaröð fatlaðra í alpagreinum skíðaíþrótta.
Hann er ekki síðri í golfinu, þar sem hann er með einn í forgjöf. Hvor íþróttin er skemmtilegri?
„Það er ekki hægt að gera upp á milli. Þær eru báðar mjög skemmtilegar og mjög ólíkar,“ sagði Hilmar í samtali við Arnar Björnsson í Sportpakka kvöldsins.
„Maður er að reyna nýta þennan tíma og lærir inn á milli. Það var eitt lokamót eftir í heimsbikarnum og því var aflýst. Maður verður þá bara að skipta yfir í golfið fyrir sumarið.“
En hver er munurinn á golfi og skíðum?
„Golfið er rólegra og skíðin meiri harka. Svo er eiginlega ekkert líkt.“