Innlent

Átta sagt upp á Vogi án samráðs við yfirlækni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi.
Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi. Vísir/Baldur

Átta starfsmönnum var í gær sagt upp störfum á Vogi og starfshlutfall annarra starfsmanna var lækkað. RÚV greinir frá og ræðir við Valgerði Rúnarsdóttur sem sjálf sagði upp störfum sem yfirlæknir á Vogi í gær. Hún kveðst ekki geta sætt sig við að teknar séu ákvarðanir um að segja upp lykilstarfsfólki án þess að það sé gert í samráði við hana eða aðra yfirmenn.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í morgun að Valgerður hefði sagt upp störfum vegna djúpstæðs ágreinings við formann SÁÁ, Arnþór Jónsson.

Valgerður, sem gerir ráð fyrir að vinna þriggja mánaða uppsagnarfrest, segir í samtali við RÚV að það sé skiljanlegt að stjórn SÁÁ þurfi að bregðast við stöðunni sem uppi er komin vegna kórónuveirunnar, og þá tekjumissi sem blasir við. Hún kveðst hins vegar ekki sátt við hvernig stjórnin bar sig að við ákvarðanatöku um skipulagsbreytingarnar.

Vísir hefur hvorki náð í Valgerði né Arnþór við vinnslu þessarar fréttar í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×