Vantrauststillaga sem borin var fram á hendur framkvæmdastjórn SÁÁ var felld á stjórnarfundi samtakanna í gærkvöld. Mbl.is greinir frá þessu. Stjórn SÁÁ boðaði til skyndifundar í fyrradag eftir að Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir og forstjóri á sjúkrahúsinu Vogi, sagði upp starfi sínu á fimmtudag.
Sjá einnig: Uppnám og óánægja allsráðandi vegna starfsloka Valgerðar á Vogi
Hátt í sjötíu starfsmenn hjá SÁÁ hafa lýst yfir vantrausti á framkvæmdastjórn stofnunarinnar síðustu daga. Bar einn stjórnarmaður fram vantrauststillöguna á skyndifundinum í gærkvöld, er fram kemur í frétt mbl.is.
Valgerður sagði ástæðu starfslokanna vera djúpstæðan ágreining við Arnþór Jónsson, formann SÁÁ. Uppsögnin kom í kjölfar ákvörðunar framkvæmdastjórnar um að segja upp átta starfsmönnum meðferðarsviðs, sjö sálfræðingum og einum lýðheilsufræðingi. Einn sálfræðinganna sem sagt var upp var yfirsálfræðingur hjá stofnuninni.
Sjá einnig: Formaðurinn býðst til að stíga til hliðar og vonar að Valgerður snúi aftur
Ákvörðunin var mjög umdeild innan samtakanna. Þrír meðlimir framkvæmdastjórnar SÁÁ hafa tilkynnt úrsögn sína í kjölfar uppsagnar Valgerðar.
Þá hefur Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, boðist til að stíga til hliðar sem formaður í þeirri von að hún snúi aftur sem yfirlæknir.