Innlent

Vinnumálastofnun fær fjármagn til að ráða 35 starfsmenn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vinnumálastofnun fær stuðning til að mæta auknu álagi.
Vinnumálastofnun fær stuðning til að mæta auknu álagi. Vísir/Hanna

Vinnumálstofnun fær allt að 100 milljóna króna viðbótarfjármagn til reksturs stofnunarinnar vegna aukinna verkefna í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.

Aldrei hafa fleiri verið í þjónustu Vinnumálastofnunar en nú, sem er til komið vegna áhrifa kórónuveirunnar og meðfylgjandi aðgerða á íslenskt atvinnulíf. Rúmlega 50 þúsund einstaklingar munu fá greiddar atvinnuleysisbætur að fullu eða að hluta á móti skertu starfshlutfalli um næstu mánaðamót.

Fyrrnefndri fjárveitingu er ætlað að standa straum af kostnaði við ráðningu 35 starfsmanna, að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins. Þeir verða fengnir tímabundið til starfans, nánar tiltekið næsta hálfa árið. Þá á peningurinn jafnframt að nýtast til að efla ýmsa stoðþjónustu svo sem tölvuþjónustu og upplýsingagjöf um ýmsa tölfræði.

Vinnumálastofnun varaði við því í morgun að tíma tæki að vinna úr öllum þeim umsóknum sem stofnuninni hafa borist.

„Þess má geta að í heildina hafa borist um 33.800 umsóknir um atvinnuleysistryggingar samhliða minnkuðu starfshlutfalli síðan opnað var fyrir þær umsóknir þann 25. mars sl. Þá hafa um 2.200 nýjar umsóknir um hefðbundnar atvinnuleysistryggingar komið inn það sem af er apríl, sem er viðbót við þá u.þ.b. 14.200 einstaklinga sem þegar voru skráðir án atvinnu í lok mars 2020,“ sagði þannig í viðvörun Vinnumálastofnunar í morgun.

Þessu hefur fylgt mikið álag á stofnunina að sögn Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra. Því sé nauðsynlegt að hans mati að efla stofnunina, til að mynda með fyrrnefndri fjárveitingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×