Fótbolti

Guðjón: Menn héldu að ég væri búinn að tapa glórunni að gera fótboltamann úr honum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðjón Þórðarson hefur átt glæstan feril sem þjálfari.
Guðjón Þórðarson hefur átt glæstan feril sem þjálfari. vísir/daníel

Guðjón Þórðarson var gestur í Sportinu í kvöld sem var sýnt á Stöð 2 Sport í gærkvöldi en eitt verkefni Guðjóns í þættinum var að velja draumalið sitt úr þeim leikmönnum sem hann þjálfaði á Íslandi.

Annar miðvörðurinn var Ólafur Adolfsson. Guðjón náði í hann fyrir tímabilið 1992 og lék hann með Skagamönnum næstu sex tímabil við góðan orðstír. Ólafur lék einnig 21 landsleik og skoraði eitt mark.

„Þegar ég var með KA þá fór ég og spilaði æfingarleik við Tindastól og þar var einn maður sem gerði Erlingi Kristjánssyni lífið leitt. Það var nú ekki á hverjum degi sem Erlingur Kristjánsson þurfti að hafa fyrir því en þarna var einhver Ólafur Adolfsson sem var norður á Sauðárkróki. Hann gerði Erlingi lífið leitt,“ sagði Guðjón og hélt áfram:

„Um haustið ákvað ég að sækja þetta tröll og menn á Skaganum héldu að ég væri loksins búinn að tapa glórunni að gera fótboltamann úr honum en Óli varð feykilega öflugur hafsent. Hann var landsliðsmaður, sterkur varnarmaður og mikill leiðtogi.“

„Hann er ekki bara búinn að vera í fótboltanum heldur einnig í bæjarpólítíkinni og láta til sín taka. Hann er orðinn gegnheill Skagamaður og þetta er eitt af því besta sem ég gerði í fótboltanum var að ná í hann til Skagans.“

Klippa: Sportið í kvöld - Guðjón um Ólaf Adolfsson

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×