Enski boltinn

Planið sagt núna vera að spila alla leikina frá 8. júní til 27. júlí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool mennirnir Alex Oxlade-Chamberlain, Andy Robertson, Roberto Firmino, Trent Alexander-Arnold, Virgil Van Dijk og Mohamed Salah eru örugglega orðnir óþreyjufullir eftir því að fá að tryggja sér titilinn.
Liverpool mennirnir Alex Oxlade-Chamberlain, Andy Robertson, Roberto Firmino, Trent Alexander-Arnold, Virgil Van Dijk og Mohamed Salah eru örugglega orðnir óþreyjufullir eftir því að fá að tryggja sér titilinn. Getty/Laurence Griffiths

Ensku úrvalsdeildarliðin vinna núna út frá verkefninu „Project Restart“ sem enska úrvalsdeildin kynnti fyrir félögunum á síðasta fundi þeirra.

Kórónuveiran COVID-19 hefur séð til þess að ekkert hefur verið spilað í ensku úrvalsdeildinni síðan 13. mars síðastliðinn og liðin í deildinni eiga eftir að spila níu eða tíu leiki.

Enska úrvalsdeildin er á fullu að skipuleggja endurkomu sína en allt mun þó ráðast af því hvort hún fái grænt ljós frá stjórnvöldum og sýni fram á að hægt sé að fylgja öllum reglum um smithættu.

Sumarleikir ensku úrvalsdeildarinnar eru nú sagðir skrefi nær veruleikanum ef marka má fréttir af nýju skipulagi deildarinnar sem félögin fengu í hendurnar á dögunum.

The Times fjallar um „Project Restart“ en samkvæmt því er ætlunin að klára tímabilið án áhorfenda og á útvöldum leikvöngum sem standast strangar öryggiskröfur.

Ein aðalástæðan fyrir þvi að spila leikina á fáum leikvöllum er að minnka þörfina fyrir lögreglumenn, læknisþjónustu og prófanir. Græna ljósið þarf samt alltaf að koma frá stjórnvöldum.

Samkvæmt „Project Restart“ eiga liðin að byrja að æfa fyrir 18. maí og leikirnir fara síðan af stað þremur vikum síðan. Á áætlun er síðan að klára mótið frá 8. júní til 27. júlí.

Það mun koma í ljós 1. maí næstkomandi hvaða vellir fá það verkefni að hýsa síðustu níu umferðirnar en um það verður sérstök kosning.

Stjórnvöld hafa líka hvatt ensku úrvalsdeildina til að hefja aftur leik og klára tímabilið því það er að þeirra mati talið geta haft góð áhrif á ensku þjóðarsálina á þessum erfiðum tímum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×