Innlent

Hefði ekki verið skynsamlegt að halda hlutastarfaleiðinni óbreyttri

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Safnahúsinu í dag.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Safnahúsinu í dag. Vísir/Vilhelm

Fjármálaráðherra segir að ekki hefði verið skynsamlegt að halda hlutastarfaleiðinni svokölluðu óbreyttri. Þá geri hlutagreiðslur uppsagnarfrests fyrirtækjum kleift að leggjast í híði og bíða bjartari tíma - og forðast gjaldþrot, líkt og kallað hafði verið eftir.

Á meðal þeirra kórónuveiruaðgerða sem ríkisstjórnin kynnti á blaðamannafundi í dag var framlenging hlutastarfaleiðarinnar, án breytinga með 25% lágmarksstarfshlutfalli út júní, en lágmarkið hækkar svo í 50% í júlí. Leiðin verður í boði til 31. ágúst. Að óbreyttu hefði hlutastarfaleiðin fallið úr gildi 1. júní.

Þá verður fyrirtækjum, sem orðið hafa fyrir 75 prósent tekjutapi að lágmarki og sjá fram á áframhaldandi tap, gefinn kostur á að sækja um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu á hluta uppsagnarfrests. Stuðningurinn verður að hámarki 633 þúsund krónur, auk orlofs, í allt að þrjá mánuði.

Klippa: Viðtal við Bjarna Benediktsson

Óvissunni um hlutastarfaleiðina svarað í dag

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í samtali við fréttastofu nú eftir fundinn í Safnahúsinu að umfang aðgerðanna færi eftir því hvernig á það væri litið. Þannig væri áætlað að um 35 þúsund manns væru að nýta hlutastarfaleiðina og kallað hefði verið eftir því hvað tæki við þegar hún félli úr gildi um mánaðamótin maí/júní. Því hefði verið svarað í dag. Aðgerðin nái til tugþúsunda starfsmanna á vinnumarkaði og því afar umfangsmikil.

Ríkisstjórnin geri sér jafnframt grein fyrir því að gríðarlegur kostnaður falli á ríkissjóð ef ekkert verður að gert. Aðgerðirnar snúist einnig um að verja störfin sem enn eru eftir og þá sé leitast við að fyrirtæki sem orðið hafa fyrir algjöru tekjuhruni og ráða ekki við að greiða uppsagnarfrest geti lagst í híði og beðið átekta þar til tekur að birta til að nýju.

Um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hækka lágmark hlutabótaleiðarinnar í 50 prósent í júlí, og hvort það stuðli frekar að uppsögnum en hitt, sagði Bjarni að nú væri komið að ákveðnum gatnamótum. Ekki væri skynsamlegt að halda áfram með hlutabæturnar óáreittar. Ríkisstjórnin væri að reyna að svara kalli þeirra fyrirtækja sem vildu möguleikann á því að „leggjast í híði“, einkum fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Ekkert launungamál að verið sé að skoða stuðning við Icelandair

Inntur eftir því hvort verið væri að skoða sérstaklega aðgerðir varðandi Icelandair, sem boðað hefur miklar uppsagnir í þessari viku, sagði Bjarni að á undanförnum vikum hefði ríkisstjórnin kynnt sér stöðu og áform félagsins til að geta lagt grunn að upplýstri ákvörðun í þeim efnum.

Það sé ekkert launungamál að stjórnvöld leggi upp með möguleikann á einhvers konar stuðningi við félagið. Ákvörðun verði tekin þegar áform félagsins sjálfs liggi fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×