Á ríkisstjórnarfundi í dag var samþykkt tillaga fjögurra ráðherra um að ríkið væri tilbúið að eiga samtal við Icelandair um veitingu lánalínu eða ábyrgð á lánum til félagsins.
Frá þessu er greint í tilkynningu á vef stjórnarráðsins en ráðherrarnir fjórir sem lögðu fram tillöguna eru Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra.
Í tilkynningunni segir að aðkoma stjórnvalda sé háð því „að fullnægjandi árangur náist í fjárhagslegri endurskipulagningu félagins í samræmi við þær áætlanir sem kynntar hafa verið, þ.m.t. að afla nýs hlutafjár, en fram er komið að félagið vinnur nú að framkvæmd hlutafjárútboðs fyrir lok næsta mánaðar.
Samhliða þessari vinnu halda viðræður áfram um nánari forsendur fyrir mögulegri fyrirgreiðslu og skilmálum fyrir henni af hálfu stjórnvalda. Gangi áform félagsins eftir verður þingmál um fyrirgreiðslu ríkisins lagt fyrir Alþingi til samþykktar.“