Innlent

Amma og afi Liverpool-aðdáanda 104 milljónum króna ríkari

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eiginkonan keypti miðann í Krambúðinni á Selfossi.
Eiginkonan keypti miðann í Krambúðinni á Selfossi. Vísir/Egill

Hjón á Selfossi sem keyptu lottómiða í Krambúðinni á Selfossi eru 104 milljónum króna ríkari. Þau unnu sexfaldan vinning í Lottóinu á öðrum degi jóla. Potturinn fór óskiptur til hjónanna.

Í tilkynningu frá Íslenskri getspá kemur fram að eiginmaðurinn hafi séð í fjölmiðlum að vinningshafinn frá öðrum degi jóla væri enn ekki búinn að gefa sig fram. Hafði hann orð á því við konu sína að það væri nú óskandi að þessi stóri vinningur færi á góðan stað. Aldrei grunaði hann að konan sín lumaði á miðanum góða í veskinu sínu.

„Hjónin voru ekki almennilega búin að ná áttum með þessar gleðifréttir og má segja að þau hafi enn verið hálf skjálfandi þegar þau komu með vinningsmiðann á skrifstofu Íslenskrar getspár. Með í för var barnabarn þeirra hjóna og sögðu þau að það fyrsta sem þau ætluðu að gera væri að fara með snáðann í búð þar sem hann mætti velja sér eitthvað fallegt,“ segir í tilkynningunni.

Sá stutti svaraði að bragði að hann langaði í eitthvað tengt enska knattspyrnufélaginu Liverpool. Væntanlega góð sárabót fyrir þann stutta en gengi enska liðsins undanfarnar vikur hefur valdið stuðningsmönnum nokkrum vonbrigðum. Síðast tap gegn Southampton í gærkvöldi.

Aðrar ráðstafanir á vinningnum voru þau ekki enn farin að huga að.

„Það geta greinilega allir dottið í lukkupottinn,” er haft eftir vinningshafanum í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×