Ekki eru nema tíu vikur frá því Vestfirðingar fögnuðu Dýrafjarðargöngum. En þeir vilja láta bora meira. Í fréttum Stöðvar 2 nefnir formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, Hafdís Gunnarsdóttir, göng milli Ísafjarðar og Súðavíkur. Hún vill fá Álftafjarðargöngin á dagskrá til að leysa af veginn um Súðavíkurhlíð.

„Þessi vegur hérna er stórhættulegur. Fólk er að keyra hérna í skriðum á sumrin og snjóflóðum á veturna,“ segir Hafdís.
Formaður Samtaka atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum, Sigurður Viggósson, segir brýnt að bæta vegina milli Patreksfjarðar og Bíldudals.
„Þessir vegir eru handónýtir og mjög hættulegir, þurfa mjög mikið viðhald og miklar hálkuvarnir yfir veturinn.“

Hann vill tvenn göng, í gegnum Hálfdán og Mikladal.
„Það er næst á dagskrá hjá okkur, að koma þarna göngum í gegn. Þetta eru ekkert löng göng og væntanlega ódýr. Og fjöllin hér á Vestfjörðum eru ekta til að búa til göng. Það er búið að sanna það,“ segir Sigurður.
Vegagerð er hafin Dynjandisheiði en göng efst á heiðinni hafa verið til skoðunar. Fleiri hindranir eru nefndar á Vesturleiðinni.
„Klettshálsinn er ennþá erfiður. Dynjandisheiðin er komin á dagskrá á samgönguáætlun, sem betur fer, en Klettshálsinn er ennþá fyrirstaða,“ segir Hafdís, formaður Fjórðungssambandsins.
Kúabændurnir í Hvammi á Barðaströnd enduspegla óþreyju Vestfirðinga.

„Auðvitað þarf náttúrulega að bæta vegakerfið stórlega sem fyrst. Við viljum fá þetta allt í hvelli,“ segir Valgeir Davíðsson.
„Og bora í gegn þannig að Klettsháls sé út. Klettsháls verður aldrei heilsársvegur,“ segir Ólöf María Samúelsdóttir.
Með Klettshálsi eru Vestfirðingar þannig að tala um minnst fern jarðgöng.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: