Sport

Óvíst hvort keppnisbanni verði aflétt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ekki hefur verið keppt í Olís-deild karla í handbolta síðan í byrjun október.
Ekki hefur verið keppt í Olís-deild karla í handbolta síðan í byrjun október. vísir/hulda margrét

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vildi ekki gefa upp hvort banni á keppnisíþróttir yrði aflétt þegar nýjar sóttvarnareglur taka gildi í næstu viku.

Keppnisíþróttir hafa verið óheimilar hér á landi síðan í byrjun október. Ekki náðist að ljúka keppni á Íslandsmótinu í fótbolta og ekki hefur verið leikið á Íslandsmótinu í handbolta og körfubolta í þrjá mánuði.

Þórólfur gaf lítið upp er hann var spurður hvenær keppnisíþróttir gætu farið aftur af stað á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

„Við erum í stöðugu sambandi við nánast alla aðila sem hafa orðið fyrir takmörkunum og erum að reyna gera okkar besta í því að halda þessum faraldri niðri og eins að hafa aðgerðirnar ekki of íþyngjandi. Það er þessi stöðuga áskorun sem við stöndum frammi fyrir og það mun ekkert lagast á næstunni,“ sagði Þórólfur.

„Eins og ég gat um áðan vil ég á þessu stigi ekkert fara yfir hvaða tillögur liggja fyrir eða hvaða tillögur verða gerðar sem taka gildi 13. janúar. Ég held að það verði að koma í ljós. Við verðum að fara mjög varlega í öllu því sem við erum að gera. Það gildir um keppnisíþróttir eins og allt annað í þessu samfélagi.“

Æfingabanni, sem hafði verið í gildi frá byrjun október, var aflétt að hluta í desember. Leikmenn í efstu deildum máttu þá byrja aftur að æfa og þá fengu leikmenn í næstefstu deildum undanþágu til æfinga.

Nýjar sóttvarnareglur taka gildi miðvikudaginn 13. janúar en þær eru enn í vinnslu eins og fram kom í máli Þórólfs á upplýsingafundinum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×