Makamál

Kynhlutlaus fornöfn: „Flestir vilja ekki særa fólk og eru hræddir við að gera mistök“

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Tótla I. Sæmundsdóttir fræðslustýra Samtakanna '78 svarar spurningum Makamála um notkun og sögu kynhlutlausra fornafna eins og hán, hé og hín. 
Tótla I. Sæmundsdóttir fræðslustýra Samtakanna '78 svarar spurningum Makamála um notkun og sögu kynhlutlausra fornafna eins og hán, hé og hín.  Samsett mynd

„Ég hef upplifað óöryggi hjá fólki við að nota nýju fornöfnin. Besta leiðin til að ræða við fólk um þessi orð að mínu mati er að draga úr hræðslunni. Flestir vilja ekki særa fólk og eru hræddir við að gera mistök,“ segir Tótla I. Sæmundsdóttir fræðslustýra Samtakanna '78 í viðtali við Makamál.

Stúlka og drengur. Karl og kona. Hann og hún eru þau persónufornöfn sem við þekkjum yfir karlkyn og kvenkyn og þau fornöfn sem við flest kunnum að nota. Með breyttum tímum og aukinni réttindabaráttu fólks sem finnst það hvorki tilheyra karlkyni né kvenkyni hefur tungumálið þurft að aðlagast.

Fólk sem skilgreinir sig sem kynsegin kýs flest að nota kynhlutlaus persónufornöfn. Þar sem hvorugkyns persónufornafnið það er almennt ekki notað um manneskjur þá hafa ný fornöfn rutt sér til rúms hérlendis. Fornöfnin hán, eða hín eru fornöfn sem notuð eru og taka þau yfirleitt með sér hvorugkyn, það er þó ekki algilt.

Mörgum gæti jafnvel fundist þetta ruglingslegt og erfitt í notkun sem eðlilegt er þegar eitthvað breytist eða bætist við tungumálið okkar og hefðir í málnotkun. Fólki gæti líka fundist það viðkvæmt að spyrja um þessi mál og forðast því jafnvel að nota fornöfnin.

Kynseginn fáninn. Tótla segir að þó að flestir sem skilgreini sig sem kynsegin kjósi það að nota kynhlutlaus fornöfn þá sé það alls ekki algilt og því mikilvægt að ræða við fólk og spyrja hvaða fornöfn það vill nota. Getty

Best væri að draga úr hræðslunni við notkunina

Hvenær var það sem þessi nýju fornöfn (hán hé eða hín) urðu hluti af íslenskri tungu?

„Sjálf heyrði ég fyrst af þessum fornöfnum í notkun í kringum 2013. Alda Villiljós skrifaði grein í Knúz (feminískt vefrit) um notkun háns sem fornafns. Í þessari grein fer hán aðeins yfir ferlið og hvernig er að upplifa sig utan kynjatvíhyggjunnar. Það er að segja ekki einungis sem mann eða konu. Ég geri ráð fyrir því að fleiri hafi verið búnir að máta ýmis orð fyrir sig fyrir það,“ segir Tótla.

Í Svíþjóð hefur fornafnið hen verið notað í lengri tíma sem er fyrirmynd íslenska orðsins hán. Hen hefur verið notað þegar fólk veit ekki kyn einstaklings. Meðal annars þegar fólk veit ekki kyn barna eða þegar fólk er að tala um maka fólks sem það veit ekki kyn á.

Í ensku hefur verið notað they/them sem kynhlutlaust fornafn og segir Tótla suma hafa snúið því yfir á íslensku í þau/þeim/þeirra.

„Flestir hafa hins vegar horfið frá því af því að það hefur verið erfiðara að nota í íslenskri málhefð.“

Upplifir þú óöryggi hjá fólki við notkun þessara nýju fornafna?

„Já, ég hef upplifað óöryggi hjá fólki við að nota nýju fornöfnin. Besta leiðin til að ræða við fólk um þessi orð að mínu mati er að draga úr hræðslunni. Flestir vilja ekki særa fólk og eru hræddir við að gera mistök. Þess vegna hef ég verið að leggja áherslu á að reyna eins og það getur.“

Bera virðingu fyrir fólki og nota þau nöfn og fornöfn sem fólk vill nota en vera samt meðvituð um að þetta er nýtt í tungumálinu og það er ekkert hættulegt við að gera mistök. Þá er best að biðjast afsökunar og halda áfram. Það vill enginn að fólk forðist samræður við fólk eða sitja undir langri afsökunarbeiðni sem gengur út á hversu erfitt það er fyrir einstaklinginn að læra ný fornöfn.

Að vera óöruggur um notkun nýrra fornafna segir Tótla vera mjög eðlilegt. Á sama tíma segir hún mikilvægt að fólk æfi sig og veri óhrætt við að spyrjast fyrir. Getty

Ekki algilt að kynsegin fólk kjósi að nota kynhlutlaus fornöfn

Nú er engin ein regla varðandi notkun kynhlutlausra persónufornafna. Sem dæmi, kjósa sumir að taka með sér hvorugkyn og aðrir ekki. Er það þín upplifun að kynsegin fólk hafi skilning á því að þetta geti verið ruglingslegt í notkun fyrir einhverja?

„Það eru allir meðvitaðir um að þetta er nýtt í tungumálinu og fólk er að læra. Ég held að flestir skilji alveg muninn á því þegar þau eru miskynjuð viljandi til að særa eða þegar annað fólk gerir mistök af því að það er enn að æfa sig.“ Tótla bætir því við að það sé ekki algilt að kynsegin fólk kjósi að nota þessi fornöfn en þó sé það algengara en ekki.

Fornöfnin hé og hín – Hvenær eru þau notuð og hvernig eru þau frábrugðin hán?

Það fer allt eftir fólki hvaða fornöfn þau kjósa að nota. Hán er langalgengast en hé og hín eru önnur kynhlutlaus fornöfn. Fólk er með mismunandi tengingu við hljóm orðanna.

Hér er hægt að sjá fallbeygingu fornafnanna hán, hé og hín.

  • Hér er hán 
  • um hán,
  • frá háni, 
  • til háns.
  • Hér er hé, 
  • um hé,
  • frá héi, 
  • til hés.
  • Hér er hín,
  •  um hín,
  • frá híni, 
  • til híns.

Fyrir þá sem vilja fræðast enn frekar um Hinsegin málefni er þeim bent á síðuna Hinsegin frá A-Ö og Samtökin '78.


Tengdar fréttir

„Ég elska konur, ég elska kynsegin fólk, ég elska karla“

„Ég geri mitt besta að sýna allskonar fólk í verkum mínum og mennta mig um baráttur þeirra eins og fötlunarfordóma, fitufordóma, hinseginfordóma og fleira í þeim dúr. Ég vil að þau sem hafa ekki séð sjálf sig í myndlist geti séð sig í mínum verkum.“ Þetta segir Alda Hrannardóttir listakona í viðtali við Makamál.

„Ég passaði bara ekki inn í mig“

„Frá því að ég var á kynþroskaaldri þá fann ég að það var eitthvað að, alltaf einhver vanlíðan sem að ég skildi ekki.“ Þetta segir Bjarki Steinn Pétursson í viðtali við Makamál en Bjarki kom út sem transstrákur árið 2018.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×